Takmörkuð nýliðun hjá Sjálfstæðisflokknum

13. júlí 2020
14:35
Fréttir & pistlar

Í DV um þessa helgi fjallar Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur, um líklega frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningar á næsta ári. Hann gerir ekki ráð fyrir mikilli nýliðun. Björn Jón þekkir vel til í flokknum, hefur verið varaborgarfulltrúi í Reykjavík og í forystu ungra sjálfstæðismanna.

Flokkurinn hefur nú fimm þingmenn í Reykjavík. Einungis tveir þeirra eru taldir öruggir um sigur í prófkjöri, þau Guðlaugur Þór og Áslaug Arna ráðherrar. Ólíklegt er að Brynjar Níelsson, Sigríður Andersen og Birgir Ármannsson nái öll að tryggja sæti sín í prófkjöri. Borgarfulltrúarnir Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir gætu velt einhverju þeirra úr sessi.

Í Suðvesturkjördæmi leiðir Bjarni Benediktsson lista flokksins áfram. Síðast var Bryndís Haraldsdóttir færð upp í annað sætið en lítið hefur farið fyrir henni á Alþingi. Nú þykir líklegast að Karen Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, gæti náð öðru sætinu. Jón Gunnarsson, ritari flokksins situr trúlega áfram í þriðja sæti. Hermt er að Vilhjálmur Bjarnason, sem féll út af þingi síðast, muni freista þess að ná fjórða sætinu á lista flokksins og ýta þar með Óla Birni Kárasyni út.

Búist er við átökum um þingsæti flokksins í Suðurkjördæmi. Unnur Brá Konráðsdóttir er talin munu berjast fyrir því að ná kjöri að nýju en hún féll út af þingi síðast. En þá þarf hún að stjaka við einhverjum þeirra þriggja þingmanna sem flokkurinn á núna í kjördæminu. Það eru Ásmundur Friðriksson, Vilhjálmur Árnason og Páll Magnússon sem leiddi listann. Ekki er staðfest að Páll gefi kost á sér áfram. Kæmi samt ekki á óvart. Þá halda ýmsir að Elliði Vignisson muni reyna fyrir sér. Trúlega verða átök um lista flokksins í kjördæminu.

Úr norðurkjördæmunum er ekki búist við miklum tíðindum. Í Norðausturkjördæmi er talið fullvíst að Kristján Þór og Njáll Friðbertsson haldi sætum sínum rétt eins og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir og Haraldur Benediktsson í Norðvestur kjördæminu.

Gangi þetta eftir gerist ekki annað í framboðsmálum flokksins en að fyrrverandi þingmenn kæmust inn aftur ásamt einhverjum sem eiga feril að baki í sveitarstjórnum á vegum flokksins.

Rétt er að árétta að hér er um vangaveltur að ræða og enn er alllangt til kosninga - skyldi maður ætla. En þó er aldrei að vita!