Tækifærissinni mættur í bæinn?

Framsóknarflokkurinn fékk Einar Þorsteinsson, sjálfstæðismann úr Kópavogi, til að leiða lista flokksins í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum. Hann er farinn að koma fram í viðtölum og slá um sig og reynir að tala eins og framsóknarmaður.

Einar var á sínum tíma formaður félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi. Svo flutti hann til Reykjavíkur og Framsókn fékk hann til að gerast flokksmaður og leiða lista þeirra í vor en flokkurinn á nú engan borgarfulltrúa í Reykjavík.

Eftir að Miðflokkurinn hrundi í borginni og sæti Vigdísar Hauksdóttur í borgarstjórn losnaði er fyrsta sætið hjá Framsókn öruggt inni. Áhættan var því ekki svo mikil hjá fyrrum sjónvarpsfréttamanninum að stökkva á framsóknarvagninn í Reykjavík

Í stjórnmálum er það gömul saga og ný að fjölmiðlafólk á greiðari aðgang að framboðum stjórnmálaflokka en aðrir. Þetta vita Framsóknarmenn. Vandi þeirra er sá að nú er liðið nær hálft ár frá því Einar var tíður gestur á skjánum og fólk fellur hratt í skuggann.

Að auki hlaut hann sem fréttamaður mikla gagnrýni frá vinstri, réttmæta eða ekki, fyrir að draga mjög taum viðmælenda sinna af hægri kantinum í stjórnmálum. Kjósendur munu eiga erfitt með að átta sig á því hvort oddviti Framsóknar er framsóknar- eða sjálfstæðismaður. Því er líklegt að atkvæði Framsóknar í Reykjavík verði fremur á kostnað Sjálfstæðisflokksins en meirihlutans í borginni.

Íbúar Reykjavíkur og Suðvesturkjördæmis, þar sem Kópavogur er eitt sveitarfélaganna, eru sem kunnugt er einungis með hálft atkvæði samanborið við Norðvesturkjördæmi, sem er sterkasta vígi Framsóknar á landinu. Þessi mismunun kjósenda er í boði Framsóknarflokksins og í raun eitt helsta keppikefli hans.

Nú væri áhugavert ef fjölmiðlar legðu eftirfarandi spurningu fyrir Einar Þorsteinsson, úr Kópavogi, efsta mann Framsóknar í Reykjavík:

Þú hefur lengst af búið í Kópavogi og nú í Reykjavík: Höfuðborgarsvæðið hefur hálft atkvæði í Alþingiskosningum samanborið við dreifbýlið. Framsóknarflokkurinn gegnir lykilhlutverki í að viðhalda þessu ójafnvægi og kemur í veg fyrir breytingar á kosningalögum sem gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að hver kjósandi á Íslandi hefði jafnt vægi, óháð búsetu. Í forsetakosningum á Íslandi hafa allir allir eitt atkvæði. Hvers vegna ekki einnig í Alþingiskosningum? Engin skynsamleg rök eru fyrir því að skerða kosningarétt þeirra sem búa í þéttbýli. Hér er um að ræða vissa tegund mannréttindabrota! Er þetta í lagi?

Reykvíkingar hafa ekkert að gera við framsóknarmenn í borgarstjórn ef þeir vilja skerða kosningarétt borgarbúa. Borgarbúar þurfa ekkert á lukkuriddurum og tækifærissinnum að halda.

Einar verður að svara þessari spurningu: Ert þú fylgjandi þeirri stefnu Framsóknarflokksins að Reykvíkingar búi við skertan kosningarétt? Ætlar þú að beita þér fyrir jöfnun kosningaréttar til fulls á Íslandi, verðir þú kosinn?

- Ólafur Arnarson