Syndsamlega góð Spiced White ostakaka

Í þættinum Matur og Heimili í vikunni bakaði Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður ostaköku fyrir áhorfendur sem hann gerði einnig fyrir Jólablað Fréttablaðsins. Hér fáið þið lesendur góðir uppskriftina góðu af ostakökunni sem á vel við í aðventunni og um jólin.

„Ég hef alltaf verið rosalega mikið fyrir ostakökur og þá sérstaklega bakaðar. Þessi er innblásin af ostakökum frá Baskahéraðinu á Spáni, nánar tiltekið San Sebastian og oftast kölluð Brennd Bask ostakaka. Það má finna margar svipaðar útgáfur af þessari köku bæði í Portúgal og Frakklandi. Mig langaði að prufa að gera hana með súkkulaði og það passar rosalega vel. Súkkulaðið sem ég nota er úr vetrarlínunni okkar og heitir Spiced White + Caramel og er hvítt súkkulaði, kryddað með appelsínuberki og malti. Það gefur henni skemmtilegan jólakeim. Það má prufa sig áfram og nota annað súkkulaði.“

Hvar færðu innblásturinn þegar þú þróar nýjar uppskriftir?

„Oftar en ekki er það eitthvað klassískt sem passar með súkkulaði. Við erum svo heppin að vinna með hágæða kakóbaunir hér í Omnom sem auðvelt er að para saman, til dæmis með karamellu og salthnetum, þá er komin einhver lúxusútgáfa af Snickers. Það getur líka verið einhver drykkur eða matur sem maður prufaði á veitingastað sem setur eitthvað að stað. Ef maður lítur í kringum sig og prufar sig áfram með íslensk hráefni þá fæðist eitthvað nýtt. Það eina sem ég hef ekki látið ganga er að nota íslenskan þara með súkkulaði en það þarf kannski að prufa sig meira áfram með það.“

Kjartan Gíslason, súkkulaðið í Omnom 09.jpg

Þessi er syndsamlega góð og minnir mjög á jólin. FRÉTTABLAÐIÐ/VALGARÐUR GÍSLASON.

Spiced White ostakaka

fyrir 8-10

200 g rjómi

200 g sykur

120 g Spiced White + Caramel súkkulaði

500 g rjómaostur

3 egg

1 eggjarauða

Byrjið á því að hita ofninn í 230°C með blæstri. Smyrjið smellubökunarform (ég nota ca 20 cm langt form með 6 cm hliðum) með bökunarspreyi og mótið eina bökunarpappírsörk ofan í því. Passið að örkin nái vel upp hliðarnar. Hitið rjóma að suðumarki og bætið sykrinum við og látið leysast upp.

Saxið súkkulaðið og bætið út í heitan rjómann og látið standa í 2 mínútur, hrærið vel saman og látið kólna í 10 mínútur. Setjið rjómaostinn í hrærivél og hrærið þar til hann mýkist og bætið þá við eggjum og rauðunni, einu í einu þar til allt blandast vel saman, gott er að skafa úr hliðunum á milli.

Hellið rjómaostsblöndunni varlega saman við meðan hrærivélin er í gangi og passið að allt blandist vel, óþarfi er að ofþeyta blönduna þar sem við viljum ekki mikið loft í hana. Hellið blöndunni í formin, bankið aðeins loftið úr blöndunni og bakið í miðjum ofni í um það bil 20-25 mínútur.

Það er eðlilegt að kakan brúnist mjög fljótt á yfirborðinu, við viljum að hún virki nokkuð karamelluð. Takið úr ofninum og látið standa á borði í 20 mínútur áður en hún er sett inn í ísskáp yfir nóttina, einnig er hægt að kæla hana í 4-6 klukkustundir ef þið viljið bera hana á borð samdægurs. En ég mæli eindregið með að þið gerið hana degi áður en þið ætlið að bera hana fram.