Sylvía var 12 ára þegar hún ákvað að deyja: Nú á að loka staðnum sem hjálpaði henni

25. janúar 2021
12:57
Fréttir & pistlar

„Ég fékk hjálp frá þeim fyrir 10 árum og er í dag menntuð og með bílpróf, án þeirra tóla sem ég fékk frá þeim væri ég ekki hér í dag.“

Þetta segir 25 ára íslensk kona, Sylvía, í færslu sem birtist á heimasíðunni Laugaland bjargaði mér. RÚV greindi frá því á föstudag að félagið sem rekur meðferðarheimilið hefði sagt upp samningi sínum við Barnaverndarstofu. Verður starfsemin ekki boðin út aftur og verður heimilinu þar af leiðandi lokað. Ekki er talið faglegt né fjárhagslega skynsamlegt að bjóða starfsemina út aftur og því verður heimilinu lokað.

Um er að ræða einkarekið meðferðarheimili fyrir stúlkur en á heimasíðunni má meðal annars finna sögur frá fyrrverandi skjólstæðingum, aðstandendum og fagfólki. Óhætt er að segja að lokunin mælist illa fyrir hjá fyrrverandi skjólstæðingum sem tala um að Laugaland hafi bjargað ófáum mannslífum.

Ein þeirra sem segir sögu sína er fyrrnefnd Sylvía. „Markmið mitt frá 12 ára aldri var að deyja fyrir 18 ára afmælið mitt,“ segir hún meðal annars og bætir við að hún hafi byrjað ung að drekka og nota fíkniefni.

„Engin úrræði dugðu fyrir mig, sama hvert ég fór náði enginn til mín, þá truflaði það mig að vera í meðferðum með strákum og/eða á höfuðborgarsvæðinu. Það var ekki fyrr en ég var send á Laugaland að ég fékk viðeigandi aðstoð og úrræði sem var sérsniðið fyrir mig.“

Sylvía segir að þar hafi hún fundið fyrir öryggi og starfsfólkið hjálpað henni að sjá loksins framtíð. „Ég er þakklát fyrir að hafa farið á Laugaland. Þau kenndu mér að lifa og gáfu mér þá hjálp sem ég þurfti.“

Þá segir móðir ungrar konu sögu dóttur sinnar, en dóttir konunnar kom á Laugaland fyrir tíu árum síðan.

„Hún var þá 14 ára og hafði verið meira en ár í alvarlegri eiturlyfjaneyslu og stjórnlausri áhættuhegðun. Laugaland var ekki fyrsta úrræðið sem hafði verið reynt: MST, Vogur, Stuðlar, lokuð deild Stuðla, MST aftur... Laugaland reyndist vera síðasta úrræðið sem þurfti. Árangurinn sem náðist á Laugalandi, nánast frá fyrsta degi, var svo mikill að það var kraftaverki líkast og ég er nokkuð viss um að ég hafi notað orðið kraftaverk oft á þessum tíma.“

Móðir konunnar segist hafa séð þegar frá leið að þarna var ekkert yfirnáttúrulegt á ferðinni heldur samanlögð áratugareynsla starfsfólks Laugalands og kærleikur þeirra gagnvart skjólstæðingum.

„Þessi reynsla og kærleikur eru enn til staðar á Laugalandi. Þörfin fyrir Laugaland er enn til staðar í þjóðfélaginu. Það má ekki loka Laugalandi, sérstaklega þegar ekkert annað er í boði til að taka við þeim sem þurfa þessa aðstoð, þetta kraftaverk.“