Sykurinn endurspeglar sykursætt yfirborð illvirkni í sögunni

26. nóvember 2020
18:33
Fréttir & pistlar

Katrín Júlíusdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra var að senda frá sér sína fyrsta skáldsögu í október sem hefur hlotið verðskuldaða athygli. Katrín hefur nógu að snúast þessa dagana samhliða því að fylgja sinni fyrstu skáldsögu og „Ég henti mér inn á glæpasagnasviðið nú í byrjun október þegar glæpasagan mín, Sykur, kom út hjá Veröld.“

Vann glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn

Fyrsta skáldsaga Katrínar hefur strax vakið mikla athygli og hefur nú þegar unnið til verðlauna. Hún vann glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn en stofnað var til þeirra af Yrsu Sigurðardóttur og Ragnari Jónassyni í samstarfi við Veröld. „Glæpasagnaskrif mín komu mörgum á óvart en þó ekki endilega þeim sem standa mér næst. Ég hef vítt áhugasvið og hef í gegnum tíðina verið óhrædd við að prófa nýja hluti. Stundum ganga þeir upp og stundum ekki en það er mikilvægt að láta á hugmyndir sínar reyna. Í þetta sinn kláraði ég málið og út er komin bók. Nú vona ég að lesendur kunni vel að meta.“ Katrínu finnst bókaútgáfan á Íslandi ótrúlega spennandi og skemmtileg. „Hér er mikill áhugi á bókmenntum og fór ég ekki varhluta af því þegar bókin kom út. Henni hefur verið vel tekið og þykir mér sérstaklega vænt um þá góðu dóma sem hún hefur fengið en til dæmis fékk hún fjórar og hálfa stjörnu hjá Lestrarklefanum og fjórar stjörnur hjá Morgunblaðinu. Þá var hún fjórar vikur samfleytt á metsölulista eftir að hún kom út.“

Sykur vefst inn í fléttuna

Nafnið á bókinni hefur janframt vakið athygli og margir pælt í því hvort um sé að ræða verk þar sem matseld og bakstur komi þar mikið við sögu. „Þó að bókin heiti Sykur þá er þetta sannarlega ekki matreiðslubók með sykruðum uppskriftum heldur hrein og klár glæpasaga. Sykurinn endurspeglar aðallega sykursætt yfirborð sem hjúpar illvirkin í bókinni. Eins vefst sykur inn í fléttuna með ákveðnum hætti sem ég get alls ekki ljóstrað upp án þess að spilla fyrir lestri þeirra sem eiga eftir að lesa bókina.“ Hvernig er það, þegar þú ert að skrifa, kemur ekki yfir þig svona hungurtilfinning eða jafnvel matarupplifunnar löngun persónanna sem þú ert að skrifa um? „Nei, alls ekki. Glæpir verða seint kallaðir lystaukandi og þegar ég er að skrifaði um voðaverk persónanna í bókinni missti ég frekar lystina en hitt. Eins varð ég líka svo spennt að ég missti tengslin við veruleikann rétt á meðan.“


Skemmtilegast að elda góða grænmetisrétti

En hvað um kunnáttu Katrínar í bakstri og matargerð, ertu ástríðukokkur? „Mér finnst mjög gaman að elda mat og slaka vel á við eldamennsku. Hef farið á mörg matreiðslunámskeið og á heilmikið af matreiðslubókum. Ég fer samt ekki endilega eftir uppskriftum í matargerð heldur byggi á því sem ég hef lært og lesið. Sjálf borða ég ekki kjöt en þeim mun meiri fisk og grænmeti. Grænmetisréttir eru oft vanmetnir og finnst mér skemmtilegast að elda góða grænmetisrétti. Grunninn að þeim lærði ég á námskeiðum hjá Sollu Eiríks en hún er gúruinn minn í þeim efnum.“ Hvað varðar baksturinn segist Katrín alltaf vera að læra meira og meira. „Ég var lengi vel ekkert sérlega flink í bakstri því þú getur minna leikið þér með uppskriftir ef þú kannt lítið til verka. Fer því meira eftir uppskriftum þegar ég baka. Í bakstri skapar æfingin meistarann og þó ég sé langt frá því að ná því stigi þá hefur mér farið fram í bakstrinum.“

Jólastemmningin hefur vinninginn fram yfir stílinn

Þegar kemur að hefðum og siðum í tengslum við aðventuna og jólin er Katrín með sitt á hreinu. „Líkt og með lífið sjálft þá hef ég gaman að því að prófa nýja hluti á aðventu og jólunum. Þessi tilraunastarfsemi var þó stöðvuð snarlega ein jólin þegar ég skreytti allt hátt og lágt í tískunni sem þá var bleik, svört og silfruð. Elsti sonur minn horfði á mig eins og ég væri markvisst að reyna að eyðileggja jólin. Hann setti fótinn svo fast niður þegar ég lagði til að við elduðum kalkún í stað hamborgarhryggs. Eftir það eru aðventan og jólin heldur föst í skorðum með hryggnum góða og fylltum paprikum fyrir grænkerana og meðlætið er alltaf eins. Sama konfektið er á boðstólum á aðventunni og allt skreytt með ósamstæðu hefðbundnu jólaskrauti. Ég held mikið uppá jólaföndur barnanna og með árunum hefur það skraut tekið mikið til yfir aðkeypt skraut. Við hlustum líka mikið á klassísku jólalögin. Stemmning hefur því vinninginn yfir stílnum á mínu heimili.“

Líðan og langanir ráða för um jólin

Katrín segist ávallt hlakka til jólanna og þau séu tími fjölskyldunnar. „Við bjóðum fólkinu okkar til okkar á aðfangadagskvöld og því eru jólin fjölskyldutími. Á jóladag og aðra frídaga milli jóla og nýárs ræður klukkan okkur ekki heldur líðan og langanir. Það er mjög afslappandi þegar kvöldmatur má vera morgunmatur og öfugt. Kósíkvöld má vera kósímorgun. Ég er mikil röð og reglukona og því er það afslappandi að slökkva á því í nokkra daga á ári.“

Dísæt karamellukaka uppáhalds með bragð af æskunni
Í tilefni aðventunnar sem framundan er fengum við Katrínu til að deila sinni uppáhalds uppskrift með lesendum. „Uppáhaldskakan mín er dísæt karamellukaka. Alltaf þegar mikið stendur til hef ég beðið mömmu að baka þessa köku fyrir mig og var til dæmis boðið uppá hana þegar við Bjarni M. Bjarnason maðurinn minn giftum okkur. Hún er ekki auðveld í bakstri þó uppskriftin sé einföld og þurfti ég að baka botnana tvisvar fyrir þessa myndatöku. Ég ætla þó að æfa mig og æfa mig þar til ég get gert hana með bundið fyrir augu svo börnin mín geti notið hennar eins og ég hef gert.“ Það er oft svo að uppáhalds kökur eiga sér sögu og í þessu tilviki er engin undatekning á því. „Mamma mín bakar bestu kökurnar og notast hún mikið við uppskriftir frá ömmu sem einnig var mjög fær í bakstri. Þessi kaka er ein af þeim kökum og hefur verið í uppáhaldi frá því að ég smakkaði hana fyrst sem pínulítið stúlkukorn. Þetta er því bragð af æskunni. Ef þú vilt gera áferðafallega köku þá bakar þú kannski ekki þessa köku en ef þú vilt gera heiðarlega ljúffenga köku þá er þetta bingó. Í mínum augum er þetta þó fegursta kaka í heimi. Bara að sjá hana æsir upp bragðlaukana hjá mér og ég verð eins og lítil stelpa inn í mér þegar ég graðga hana í mig.“

Katrín Júlíusdóttir 55 (3).jpg

Dísæt karamellukaka að hætti Katrínar

Botnar

3 egg

1 bolli sykur

½ plata suðusúkkulaði með appelsínubragði

1 bolli mulið kornflex

1 bolli saxaðar möndlur

1 tsk. lyftiduft

Mér finnst gott að setja örlítið salt í uppskriftina

Þeytið egg og sykur vel saman eða þar til blandan er létt og ljós. Blandið öðrum hráefnum varlega saman við. Hellið í tvö form. Mikilvægt að nota bökunarpappír annars er erfitt að ná botnunum úr forminu. Setjið í heitan ofn og bakið við 160 gráður í u.þ.b 40 mínútur.

Karamellukrem

2 dl rjómi

120 g sykur

1 msk. síróp

50 g smjör

3 vanilludropar

Sjóðið rjóma, sykur og síróp á vægum hita í 30 mínútur. Blandið smjörinu og vanilludropum, eftir smekk, saman við í lokin og kælið áður en kreminu er hellt yfir kökuna. Þeyttur rjómi er settur á milli botna og best er að setja hann snemma á kökuna svo botnarnir haldi mýkt. Setjið að fallegan kökudisk og skreytið að vild. Njótið vel.