Svör lögreglunnar á Twitter valda úlfúð meðal netverja

Svör lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við myndbandi Geoffrey Huntington Willams af handtöku manns á Austurvelli og spurninga hans í kjölfarið á samfélagsmiðlinum Twitter hafa vakið mikla athygli í dag og í kvöld.

Greint var fyrst frá málinu á vef Fréttablaðsins. Þar sagði Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn að maðurinn hefði fyrr í dag rænt verslun vopnaður hnífi. Því hafi verið um eðlilegt verklag lögreglu að ræða, sem mætti vígbúin á Austurvöll.

Í færslu sinni spyr Geoffrey hvort hér sé á ferðinni eðlilegar varúðarráðstafanir lögreglu þegar handsama eigi tvo ógæfumenn af bekk á Austurvelli. Lögreglan svarar honum á sínum reikning.

„Ég set spurningarmerki við þessa fullyrðingu þína um að þetta séu einhverjir ógæfumenn, hvað þá útigangsmenn. Er það af því að þeir kjósa að setjast á þessa bekki ? Þannig að ef ég sest þarna einhvern daginn er ég fordæmdur útigangsmaður eða ógæfumaður ?“

„Virðing fyrir embættinu minnkaði all verulega“

Ljóst er að svör lögreglunnar falla í grýttan jarðveg á samfélagsmiðlinum. Fjölmargir hneyksla sig á svarinu. Þannig spyr Gunnar Garðarsson hvort lögreglan þurfi ekki aðeins að skoða hvernig hún beitir samféalgsmiðlum og spyr hann ennfremur hvort hér sé á ferðinni eðlilegt svar frá stofnun líkt og þessari.

„Virðing fyrir embættinu minnkaði all verulega að sjá að lögreglan á höfuðborgasvæðinu er með kjaft á twitter. Svo langt frá því að vera fagmannlega svarað,“ segir Margrét Johnson. Svarar lögreglan henni þá til baka og spyr hvaða svars hún sé að vitna til.

„Það svar þar sem "þú" hefur allt í einu skoðanir. LRH er embætti ríkisins og ætti aldrei að svara með svona stælum á twitter. Sama hvað var eða var ekki í gangi,“ svarar hún þá. Segir lögreglan, eða aðgangur hennar, að meiningin hafi verið sú að benda á að fara varlega í að fordæma hvort heldur sem er aðstæður eða persónur þegar forsagan er ekki kunn.

Sjálfur segir Geoffrey að hér sé ekki svarið sem hann hafi verið að leita að. „Ekki alveg svarið sem ég er að leita af. En takk kærlega fyrir ómakið að skrifa tilbaka.“

Fleiri svör við svörum lögreglunnar má lesa hér að neðan: