Svona var maturinn í farsóttahúsinu í gær

„Svo mikið key að bjóða upp á rifinn ost og lax saman í máltíð,“ segir Sæbjörn Steinke, starfsmaður fótboltavefjarins Fótbolti.net, á Twitter-síðu sinni.

Sæbjörn fylgdi U21 árs landsliðinu eftir þegar liðið spilaði í sínum riðli á Evrópumótinu í Györ í Ungverjalandi á dögunum. Strákarnir – og hópurinn allur – komu heim í gærkvöldi og fór hópurinn beint á sóttvarnahótelið í Þórunnartúni þar sem við tekur sóttkví.

Óhætt er að segja að mismikil ánægja sé með þetta fyrirkomulag en sem dæmi þurfti A-landsliðið, sem lék í Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein á dögunum, ekki að fara á sóttvarnahótelið. U21-landsliðið þurfti hins vegar að gera það þar sem Ungverjaland er metið sem áhættusvæði.

Sæbjörn hefur haldið fylgjendum sínum á Instagram upplýstum um stöðu mála og birti hann meðfylgjandi myndband í gærkvöldi af kvöldmatnum sem beið hópsins:

Sæbjörn benti svo á það í morgun að hópurinn fengi þrjár máltíðir á dag. „Þrjár máltíðir á dag? Skelfilegt að vakna við þessi tíðindi frá Kolbeini Tuma,“ sagði hann meðal annars og vísaði í umfjöllun Vísis í gærkvöldi. Sæbjörn er svo spurður út í þær reglur sem gilda í farsóttahúsinu, hvort fólk fái ekki að fara út, hvort þeir sem eru vegan fái mat við hæfi eða hvað reykingafólk á að gera.

„Sko, það sem ég heyrði í gær var hálftíma göngutúr 1x á dag. Ég var spurður um 'food restrictions' og ofnæmi. Varðandi sígó þá náði forvitni mín ekki svo langt. Reglurnar gætu þess vegna breyst í dag,“ segir Sæbjörn.

Jörundur Áki Sveinsson, aðstoðarþjálfari U21 árs landsliðsins, birti mynd af sér á Twitter-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hann sendir fingurinn. Meðfylgjandi eru þessi skilaboð: „Eftir 8 skimanir og einangrun í Ungverjalandi þá bíður okkar dvöl í sóttvarnarhúsi fram á þriðjudag í næstu viku...alveg eðlilegt bara.“

Í athugasemdum er Jörundur hvattur til að láta reyna á lögmæti þessara aðgerða. „Heimtaðu úrskurð dómara um réttmæti frelsissviptingarinnar, strax! Þetta stenst ekki lög eða stjórnarskrá. Ríkinu ber skylda til þess að útvega þér lögmann“