Sviptir hulunni af frægu Suður Amerísku tertunni

Sumar­dagurinn fyrsti hefur litið dagsins ljós og honum er iðu­lega tekið fagnandi með mat og drykk. Sælkera- og matarbloggarinn og lífskúnsterinn Anna Björk Eðvarðsdóttir segir hér frá leyndar­dómum sínum um matar­hefðir og venjur yfir sumar­tímann. Matar­hefðir fólks breytast gjarnan á sumrin og farið er í sumar­legri og léttari kræsingar.

Kræsingar fyrir hverja árstíð

Anna Björk Eðvarðsdóttir matar- og sælkerabloggari er formaður Hringsins og á líka stóra fjölskyldu og veit fátt skemmtilegra en að bjóða til matar- og sælkeraveislur með sínum bestu. Hún þekkir því vel að vera bera fram kræsingar fyrir stóran hóp fólks og taka þátt í skemmtilegum og gefandi fjáröflunum fyrir Hringinn þar sem hægt er að njóta kræsinga frá henni sem fylgja hverri árstíð fyrir sig.

M&H Anna Björk Eðvarðsdóttir 2021.jpg

Anna Björk Eðvarðsdóttir er annálaður sælkera- og matarbloggari og elskar að töfra fram kræsingar fyrir sitt fólk./Ljósmynd Valli.

Rabarbarinn er fyrsta uppskeran

Áttu þér einhvern sumarrétt sem þér finnst mikilvægt að framreiða og fagna komu sumarsins með? „Rabarbarinn er fyrsta uppskeran og það er dásamleg stemning að fara út í garð og týna nokkra stöngla upp og baka pæ eða eitthvað annað gott úr honum til að bjóða uppá. Þó svo að það tilheyri frekar síðsumrinu, þá finnst mér soðinn nýveiddur lax, borinn fram með íslenskum tómötum, gúrku, nýjum kartöflum með bræddu smjöri og skál með bláberjum og rjóma í eftirrétt, vera sumarmaturinn, með stóru essi í mínum huga.“

Meira um skelfisk á sumrin

Hvernig breytist matargerðin og baksturinn hjá þér á sumrin?

„Úrvalið af fersku grænmeti skiptir máli og við borðum til dæmis meiri skelfisk á sumrin. Það sem ræður yfirleitt valinu, er hvar við erum, á fjöllum að ganga, sigla á skútunni eða í sumarbústaðnum. Eldunaraðstaðan er mjög mismunandi og ræður þar af leiðandi verulega valinu. En það er hægt að töfra fram ótrúlega girnilega rétti á einföldum prímus á fjöllum, tala nú ekki um á steinolíueldavélinni í skútunni, hún er skemmtilegur karakter og mikil prímadonna. Þetta er allt skemmtileg stemning á fögrum sumardögum.“

Fræga tertan frá Suður Ameríku í uppáhaldi

Ertu til í að svipta hulunni af þínum uppáhalds rétt sem fylgir sumrinu?

„Já, endilega. Ég er spennt fyrir klassískum uppskriftum og hér er á ferðinni fræg terta frá Suður Ameríku, Torta De Trés leches, eða þriggja mjólkur kaka. Hvort hún er upprunalega þaðan og þá nákvæmlega hvaða landi, eru menn alls ekki sammála um. Sumir segja að hún komi frá Mexíkó, aðrir Nicaragua sumir segja Brasilíu, hver veit? Aðrir segja að upprunalega uppskriftin sé af enskri triffliköku og uppskriftin hafi farið á flakk og þróaðist í þetta afbrigði í Suður Ameríku, eftir seinni heimsstyrjöld, en kakan er á borðum víðsvegar þar á hátíðum. Ég hef gert hana nokkrum sinnum og hún er dýrðleg. Fislétt vanillukaka, gegnbleytt með sætri mjólkur/rjóma blöndu, toppuð með þeyttum sætum rjóma, smá kanil og kokteilberjum, dásamleg.“

M&H Trés leches kakasq.2.jpg

Trés leches kaka

Fyrir 8

Í botninn:

3 stór egg, aðskilin

½ bolli sykur

3 msk. mjólk

1 tsk. vanilludropar

½ bolli hveiti

1/8 tsk. salt

Í þriggja mjólkur blönduna:

2 dl Sweet condensed milk, í dós, fæst í flestum búðum

1.25 dl Evaporated milk, í dós, ef hún er til, annars matreiðslurjómi

1.25 dl rjómi

Á toppinn:

2.5 dl rjómi

1 ½ msk. flórsykur

Kanill

Rauð kokteilber, með stilk

Botninn:

Ofninn er hitaður í 180°C. Finnið til form sem er 21x25 cm., formið er síðan klætt að innan með álpappír og smurt með olíu og hveitistráð. Ef þú átt eldfast fat, sem er í svipaðri stærð, er upplagt að nota það, þá þarf bara að smyrja það og hveitistrá. Eggin eru aðskilin, eggjarauðurnar settar í hrærivélaskál og spaðinn settur á hrærivélina. Fjórðungi af sykrinum er hellt út í eggjarauðurnar og þeytt saman á háum hraða í ca. 3-4 mín. Stoppað á milli og skafið niður með skálinni með sleikju. Mjólkinni, vanilludropum, hveiti, salti og lyftdufti er hrært varlega út í, á lágum hraða, passa að hræra ekki of mikið svo kakan verð ekki þung, sett til hliðar. Eggjahvíturnar eru settar í hreina skál og þeyttar á háum hraða, þar til þær halda léttum toppum. Restinni af sykrinum er hellt út í hvíturnar og þeytt áfram á háum hraða þar til stífir toppar haldast uppi. Þeyttu eggjahvítunum er blandað varlega út í deigið með sleikju, síðan er deiginu hellt í formið og sléttað yfir. Bakað í 33-35 mín., þar til kakan er mjúk, en stinn í miðjunni, eða að prjónn komi hreinn upp þegar stungið er í botninn, tekin úr ofninum og kæld á grind í forminu. Allur botninn er pikkaður með gaffli, síðan er mjólkurblöndunni hellt varlega yfir. Þú gætir þurft að gera það í tvennu eða þrennu lagi, á meðan botninn drekkur í sig mjólkurblönduna. Plastfilma er sett yfir botninn og forminu stungið í ísskáp og geymt til næsta dags, þá er mjólkurblandan búin að bleyta botninn vel í gegn. Botninn er tekinn varlega úr forminu og settur á fallegan disk. Það er lítið mál að rífa pappírinn undan botninum. Ef þú bakaðir hana í eldföstu formi, sleppirðu því auðvitað.

Þriggja mjólkur blandan: Þeytt saman í skál.

Toppurinn: Rjóminn er þeyttur með flórsykrinum og honum er svo smurt, í þykku lagi ofan á botninn. Smávegis af kanil er drussað yfir rjómann og síðast er kokteilberjum raðað í huggulegar raðir ofan á hann, helst þannig að eitt ber lendi ofan á hverjum bita. Athugið: Kakan geymist skreytt í kæli í 2-3 daga, hún verður þá aðeins blautari, en það er ekkert verra.

Verði ykkur að góðu!