Sviplegt fráfall föður Regínu breytti öllu: „Hann var ekki búinn að fara vel með sig“

Tónlistarkonan Regína Ósk Óskarsdóttir hefur um langt skeið verið ein af okkar allra bestu söngkonum. Regína var gestur þáttarins Fram og til baka á Rás 2 á dögunum þar sem hún fór yfir fimm ákvarðanir sem hafa haft mikil áhrif á líf hennar.

Fimm ár eru síðan Regína Ósk ákvað að setja heilsuna sína í fyrsta sæti. Það gerðist eftir sviplegt fráfall föður hennar sem greinst hafði með krabbamein skömmu fyrir andlát sitt.

Í viðtalinu kom fram að Regína hefði í gegnum tíðina farið í allskonar átök með það markmið að léttast um nokkur kíló. Eftir að hafa farið í þjálfun til Yesmine Olsen þar sem hún lærði að hreyfa sig markvisst tókst henni að ná ákveðinni hugarfarsbreytingu.

„Ekki hugsa, ég ætla að vera rosa flott fyrir þetta gigg eða fyrir Eurovision eða þessa tónleika. Heldur er þetta bara verkefnið endalausa en ekki í neikvæðri merkingu.“ 

Faðir Regínu hafði fundið fyrir slappleika sem varð til þess að hann leitaði til læknis og var lagður inn á sjúkrahús. Hann greindist með ólæknandi krabbamein og var látinn átta vikum eftir greininguna. Að sögn Regínu þótti hann ekki nægilega hraustur til að takast á við lyfjameðferð.

„Hann var ekki búinn að fara vel með sig, var með áunna sykursýki og fleira,“ segir hún meðal annars en fráfall föður hennar varð til þess að hún ákvað að taka heilsuna föstum tökum.

„Þetta var kveikjan í hausnum á mér. Ég ætla ekki, ef ég fæ þetta verkefni að fá krabbamein, þá vil ég vera líkamlega í stakk búin til að takast á við það,“ segir hún meðal annars en fjallað er um viðtalið á vef RÚV. „Maður þarf að halda sér við líkamlega. Andlegi þátturinn kemur með þegar þú breytir um lífsstíl og hreyfir þig markvisst. Ekki bara hreyfa sig í þrjá mánuði heldur hreyfa sig alltaf, aldrei hætta.“