Sveitar­fé­lög, opin­ber hluta­fé­lög og stór­fyrir­tæki nýta hluta­bóta­leiðina

23. maí 2020
14:53
Fréttir & pistlar

Fjöldinn allur af fyrirtækjum nýttu hlutabótaleið stjórnvalda til að vernda stöðu starfsmanna sinna að því er kemur fram á lista sem Vinnumálastofnun birtir.

Sveitarfélög, opinber hlutafélög og sjálfseignastofnanir eru einnig á listanum.

Meðal þeirra eru sveitarfélögin, Dalvíkurbyggð, Strandabyggð og Skútustaðahreppur og tvö byggðasamlög, Strætó og Sorpa.

Þá eru einnig opinberu hlutafélögin Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús og Íslandspóstur á listanum.

Mörg fyrirtæki á listanum starfa í ferðaþjónstu en einnig má finna fjölda íþróttafélaga, veitingafyrirtæki, og líkamsræktarstöðvar, tannlæknastofur, snyrtistofur og verkfræðistofur svo fátt eitt sé nefnt.

Brimborg bílasala, H&M og Miklatorg, eignarhaldsfélag IKEA, eru einnig á listanum.

Þá má á listanum finna fjölmiðlafyrirtækin Sýn hf., Birtíng útgáfufélag og Myllusetur ehf, útgefanda Viðskiptablaðsins.

Frumvarp með þrengri skilyrðum um hlutabótaleiðina í vinnslu

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa er nú í vinnslu. Markmið þess er að framlengja hlutabótaleiðina, setja skilyrði um 25% samdrátt í starfsemi vinnuveitanda og skilyrði um 50% starfshlutfall frá og með 1. júlí 2020. Einnig eru lagt til að auka heimildir Vinnumálastofnunar til gagnaöflunar og jafnframt viðurlög við brotum á reglum um upplýsingagjöf.

Þá eru aukin skilyrði lögð til sem gera meðal annars ráð fyrir að vinnuveitandi staðfesti að hann hafi á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 ekki í hyggju að greiða út arð, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óum­samda kaupauka eða kaupa eigin hlutabréf.