Sveitarfélög á heljarþröm

Fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldin í vikunni. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, sagði í ræðu sinni að líkur séu á því að fjárhagsstaða sveitarfélaga versni á árinu 2021 frá fyrra ári, meðal annars vegna launaútgjalda sem virðist hækka langt umfram tekjuaukningu vegna útsvars.

Sigurður Ármann Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins, sagði að Lífskjarasamningarnir og stytting vinnuvikunnar hefðu reynst sveitarfélögum mun dýrari en áætlað var og kjaramálin yrðu mikil áskorun Stærsta áskorun sveitarfélaganna væri þó líkast til málefni fatlaðs fólks. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Analyticagreiningarfyrirtækisins væru sveitarfélög „sem eru með mikil útjöld vegna þjónustu við fatlað fólk varla sjárhagslega sjálfbær, nema til komi aukið fjármagn frá ríkinu.“

Alþingi hefur á undanförnum árum sett auknar skyldur á herðar sveitarfélaga meðal annars varðandi þjónustu við fatlaða. Mikil útgjaldaaukning hefur orðið vegna þessa hjá sveitarfélögunum en misbrestur hefur verið á að þessum auknum verkefnum fylgi tekjur. Þetta er ekki nýtt vandamál. Fyrir aldarfjórðungi var grunnskólinn fluttur frá ríki til sveitarfélaga en mörg ár tók fyrir sveitarfélögin að fá fullnægjandi tekjustofna á móti, hafi það þá enn gerst. Þá eru nýleg dæmi um furðulega framkomu ríkisins gagnvart sveitarfélögunum varðandi rekstur hjúkrunarheimila. Skeytingarleysi ríkisins varðandi þann kostnað sem velt er yfir á sveitarfélögin virðist á stundum vera algert.

Í grunninn er vandamálið hið sama hjá ríki og sveitarfélögum. Umsvif eru aukin umfram það sem tekjur standa undir. Hið opinbera leiðir launahækkanir í landinu. Sveitarfélögin eru í verri stöðu en ríkið að því leyti að oft er útgjaldaauki ákveðinn á Alþingi en ekki á sveitastjórnarstiginu. Þau er því oft býsna varnarlaus gagnvart auknum útgjöldum á meðan ríkið getur engum kennt um nema sjálfu sér, Alþingi, og ríkisstjórnarmeirihluta hverju sinni.

Viðvarandi hallarekstur hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, er skelfilegt vandamál. Fjárhagurinn er ósjálfbær og á endanum kemur að skuldadögum. Glannalegir stjórnmálamenn, sneiddir ábyrgðartilfinningu, vaða áfram og samþykkja útgjöld og hallarekstur í þeirri von, að því er virðist, að einhverjir aðrir komi síðar og bjargi málum. Óvíst er að svo verði. Hitt er víst, sveitarfélögin hafa ekki sama úthald og ríkið til að safna skuldum vegna þess að þau geta ekki prentað krónur líkt og ríkið.

- Ólafur ArnarsonÞ