Sveinn Andri vill bólusetningarskyldu: „Sjálfhverfa fólkið viðheldur dreifingu Covid“

Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, segir að það yrði stórt og gott skref að taka upp bólusetningarskyldu hér á landi.

Sveinn Andri deildi á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi frétt RÚV þar sem greint var frá ákalli Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, þess efnis að Evrópusambandsríkin ættu að íhuga að skylda íbúa í bólusetningu gegn Covid-19.

Fleiri hafa tekið undir þetta frá framkvæmdastjóra ESB og í þeim hópi er Olaf Scholz, tilvonandi kanslari Þýskalandi.

„Þetta yrði stórt og gott skref og þyrfti einnig að taka upp hér. Það er óbólusetta og sjálfhverfa fólkið sem viðheldur dreifingu Covid og álagi á sjúkrahús. Auðvitað eru þeir til sem af heilsufarsástæðum geta ekki tekið bóluefni. Þeir þurfa þá bara að halda sig heima,“ segir Sveinn Andri.