Sveigjanlegur og lausnamiðaður flokkur

Framsóknarflokkurinn verður í lykilaðstöðu varðandi myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningar. Nánast er útilokað að sjá fyrir sér meirihlutastjórn án hans. Þetta er einmitt sú staða sem Jónas frá Hriflu sá fyrir sér við stofnun flokksins 1916.
Stefnuskrá Framsóknarflokksins útilokar ekki samstarf við neinn stjórnmálaflokk. Flokkurinn er fyrst og fremst landsbyggðarflokkur sem stendur vörð um landbúnaðarkerfi sem gagnrýnt hefur verið sem fjandsamlegt neytendum um leið og það gagnist framleiðendum lítt. Íslenska landbúnaðarkerfið, ásamt þeim verndartollum og innflutningshömlum sem því fylgja, hefur í áratugi haldið uppi matarverði hér á landi og gert Ísland eitt dýrasta land í heimi. Ekki er þó við Framsóknarflokkinn einan að sakast í þeim efnum. Þar bera allir aðrir flokkar ríka ábyrgð, en þó ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir.
Þegar varðstöðu um úrelt landbúnaðarkerfi sleppir er Framsóknarflokkurinn öfgalaus. Í gegnum tíðina hefur hann sýnt í verki hve sveigjanlegur og lausnamiðaður hann er þegar kemur að ríkisstjórnarmyndun. Flokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í 67 af þeim 103 árum sem liðin eru frá fullveldisstofnun og tæp 50 ár af þeim 77 sem liðin eru frá því lýðveldi var stofnað hér á landi.
Öðrum flokkum fremur á Framsókn auðvelt með að starfa hvort heldur sem er til hægri eða vinstri. Í núverandi vinstri stjórn kyrrstöðu hefur Framsóknarflokkurinn þó staðið undir nafni og blásið til sóknar meðal annars í samgöngumálum. Ásmundur Einar Daðason hefur sett hagsmuni barna í öndvegi svo eftir hefur verið tekið. Þá eru hlutdeildarlánin fyrir fyrstu kaupendur komin til framkvæmda. Menntamálaráðherra hefur lagt sig fram um að bæta rekstrarumhverfi bókaútgáfu. Verr hefur gengið á sviði fjölmiðla þar sem samstarfsflokkarnir standa fastir á öfgastefnum, hvor á sínum jaðri.
Flokkurinn hefur lýst sig andsnúinn upptöku evru og frekari tengslum við ESB. Ætla má að slíkar yfirlýsingar séu að mestu til heimabrúks og til að gleðja fámennan hóp einangrunnarsinna í flokknum. Forystaflokksins veit betur, landsbyggðinni og bændum er betur borgið innan ESB en utan,og sveigjanleiki og víðsýni Framsóknar mun birtast í samningum um næstu skref þjóðarinnar í Evrópumálum.
Framsóknarflokkurinn ætti að geta unnið með öllum flokkum eftir kosningar. Nú ber svo við að Framsókn gæti losnað undan því að þurfa að velja samstarf annað hvort til vinstri eða hægri. Samkvæmt skoðanakönnunum er hugsanlegt að miðjustjórn fjögurra flokka, framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar verði raunhæfur kostur eftir kosningar. Í slíkri stjórn næði Framsókn mun meira af stefnumálum sínum fram en í samstarfi við Vinstri græna og Sjálfstæðisflokkinn. Þá er einsýnt að Sigurður Ingi Jóhannsson yrði forsætisráðherra í miðjustjórn, sem fengi það hlutverk á nýju kjörtímabili að móta Ísland framtíðarinnar eftir kjörtímabil kyrrstöðu.
- Ólafur Arnarson