Svavar byrjaði ungur að neyta fíkni­efna: Refsingar höfðu engan fælingar­mátt

3. júlí 2020
11:10
Fréttir & pistlar

„Ég vil ekki standa í sömu sporum og þegar ég var 17 ára sann­færður um að sam­fé­laginu væri að öllu leyti sama um mig. Ég vil trúa því að fólki sé annt um hvort annað og ætli ekki að leyfa fólki með vímu­efna­vanda að deyja vitandi að herslu­munurinn sem til þarf er virðing og kær­leikur og heiðar­leiki.“

Þetta segir Svafar Helga­son í grein á Vísi sem vakið hefur tölu­verða at­hygli í morgun. Í grein sinni skrifar Svafar um af­glæpa­væðingu neyslu­skammta fíkni­efna, en frum­varp Pírata þess efnis var fellt í at­kvæða­greiðslu á Al­þingi í vikunni. Færir Svavar rök fyrir því hvers vegna réttast væri að af­glæpa­væða vímu­efna­neyslu.

Í greininni segir Svafar frá sinni sögu með vímu­efni og hvernig hans reynsla hefur mótað hans við­horf. Svavar segist hafa verið svo­kallað kerfis­barn sem var í fóstri hjá starfs­mönnum hins opin­bera frá 9. Bekk. Sau­tján ára var hann farinn út á leigu­markaðinn með lítið sem ekkert að­hald frá fjöl­skyldunni. Á þessum tíma kynntist hann dag­reykingum á kanna­bis­efnum og reglu­legri notkun annarra vímu­gjafa sem fljót­lega fóru að valda honum tals­verðum innri erfið­leikum.

„Að ein­hverju leyti var ég að flýja þann raun­veru­leika að vera ein­samall með ekkert öryggis­net og litla til­finningu um væntum­þykju eða stuðning í minn garð. Neysla vímu­efna var leið fyrir mig að forðast til­finningar sem ég hafði sem ung­lingur enga burði til að vinna í gegnum, en varð með tímanum einnig flótta­leið frá öllum erfið­leikum sem svo hlóð upp skömm og sektar­kennd og hömluðu mér í að þróa góðar leiðir til að takast á við erfið­leika í dag­legu amstri.“

Svavar segir að í hans til­felli hefði lög­mæti og refsingar tengdar vímu­efnum engan fælingar­mátt. Stærstu á­hrifa­þættirnir hafi verið fé­lags­legar að­stæður hans.

„Þegar ég fór svo í kjöl­farið í með­ferð og þar eftir í tólf spora sam­tök, var sú skoðun um að lög­mæti og refsingar hefði engan og jafn­vel nei­kvæðan fælingar­mátt sú sem var alls­ríkjandi hjá öllum fíklum og alkó­hól­istum sem ég átti sam­tal við, og þau voru mörg sam­tölin sem við áttum um eðli fíknar.“

Svavar segir að sú spurning vakni hvort þetta við­horf spretti ekki upp úr hlut­drægni og hvort ein­hverjir hópar fólks hefðu leiðst út á slæma braut ef refsi­stefnan væri ekki við lýði. Segir hann að ef ekki væri fyrir eitt aug­ljóst dæmi um lög­legan vímu­gjafa væri erfitt að svara spurningunni.

„Á­fengi er lög­legt efni sem fólk á­netjast en þegar fólk sem hefur á­netjast því talar um fíkn sína og af hverju alkó­hól spilaði svo stóran sess í neyslu þeirra þá verður laga­leg staða hinna efnanna aldrei á­stæða þess að vínið var í fyrsta sæti. Einungis hvaða á­hrif vín hafði á fólk og hvernig það auð­veldaði þeim að lifa með til­finningar sem það hafði ekki burði til að eiga við eða lifa með, ef annað efni hefði virkað betur þá væri lög­hlýðnin fokin út um gluggann, sem reyndar oft varð raunin, jafn­vel hjá þeim sem þóttu vænst um vínið.“

Svavar segir að hjá öllum sem hafa barist við fíkn sé skömmin, óttinn og van­líðanin sam­eigin­leg. „Hjá öllum þeim sem hafa barist við fíkn er þessi upp­runi sam­eigin­legur og fyrir mörg er hann enn dag­legur sann­leikur. Þau sem þekkja þennan upp­runa og hafa, með sjálfs­vinnu og hjálp­semi annara, náð að vinna sig úr honum vill ég biðla að muna vel eftir honum. Að muna að það var ekki refsing sem barði ykkur á betri veg. Að það var vonin en ekki von­leysið sem gerði gæfu­muninn. Að það er hjálpar­höndin sem öllu skiptir,“ segir hann.

Að lokum segir hann að jaðar­setningin sem fylgir því við­horfi að refsa eigi vímu­efna­neyt­endum sporni ekki við þeim vanda sem dregur fólk inn í víta­hring of­neyslu. „Hún bein­línis eykur á út­skúfun, ein­mana­leika, skömm og ótta sem eru ein­mitt þær til­finningar sem fólk segir að neyslan sé til að halda í skefjum.“

Grein Svafars má lesa í heild sinni hér.