Svartur dagur í Sví­þjóð: Aldrei fleiri greinst með veiruna

20. nóvember 2020
17:00
Fréttir & pistlar

Alls greindust 7.240 ein­staklingar með kórónu­veiruna í Sví­þjóð síðast­liðinn sólar­hring sem er það hæsta á einum degi í far­aldrinum til þessa. Þá var til­kynnt um 66 dauðs­föll á sama tíma.

Alls hafa nú 6.405 manns látist í Sví­þjóð frá því að far­aldurinn fór að láta á sér kræla fljót­lega upp úr ára­mótum. Hefur far­aldurinn verið í vexti í Sví­þjóð að undan­förnu og eru af­leiðingarnar þær að Svíar hafa á­kveðið að snúa baki við hinni svo­kölluðu sænsku leið.

Hertar sam­komu­tak­markanir taka gildi eftir helgi og eru þær að nokkru leyti strangari en þær sem gilt hafa á Ís­landi síðustu vikur. Þannig munu einungis átta manns mega koma saman miðað við tíu hér á landi. Þó miðast bannið að­eins við leyfis­skylda við­burði, en ekki vinnu­staði eða verslanir til dæmis.

Svíar hafa sett aukinn kraft í sýna­tökur sem sögð er skýra fjölgun til­fella, að hluta að minnsta kosti. Engum blöðum er þó um það að fletta að far­aldurinn hefur verið í vexti í Sví­þjóð, en fyrra met var tæp­lega sex þúsund smit á einum sólar­hring fyrr í þessum mánuði.

Ef litið er til ná­granna­landa Sví­þjóðar sést að staðan er býsna svört. Þannig er ný­gengi smita í Sví­þjóð tíu sinnum hærra en í Finn­landi, tæp­lega fjórum sinnum hærra en í Noregi og tvisvar sinnum hærra en í Dan­mörku.