Svar Sóla Hólm til Gumma Ben sló í gegn

Íþróttafréttamaðurinn Guðmundur Benediktsson, eða Gumm Ben eins og hann er gjarnan kallaður, þykir með þeim orðheppnari í bransanum. Það sama á við um grínistann og eftirhermuna Sólmund Hólm Sólmundsson, sem er betur þekktur sem Sóli Hólm.

Guðmundur leitaði á náðir fylgjenda sinna á Twitter þegar hann kvartaði undan því að hafa ekki fengið vörur sem hann hefur pantað á netinu að undanförnu. Gefum Gumma orðið:

„Undanfarna mánuði hef ég pantað einn & einn hlut sem hefur poppað upp á Instagram-auglýsingum hjá mér. Ekkert af þessu hefur skilað sér til mín, eru þeir ekki bara að bíða eftir að vörurnar mínar fylli uppí einn gám og svo senda þeir mér allt stöffið í einu?“

Kommentin sem Gummi fékk voru fæst mjög gagnleg, nema kannski þetta frá Sóla Hólm:

„Best að panta bara beint í gegnum íslensku síðurnar, http://blush.is og http://Losti.is,“ sagði Sóli en eins og einhverjir eflaust vita eru þetta verslanir sem selja svokölluð hjálpartæki ástarlífsins. Gummi Ben svaraði kommenti Sóla ekki efnislega en sagði þó:

„Auðvitað fékk ég strax meldingu um að eiga pakka hjá póstinum eftir færsluna í gær, ég man samt ekki til þess að hafa í einhverju ölæði pantað rafmagnstannbursta!!“