Svanur kemur eig­endum Sam­herja til varnar: „Ríkis­sjóður mun fá mikla fjár­muni til sín“

22. maí 2020
20:00
Fréttir & pistlar

„Hættum að líta til sjávar­út­vegsins með öfundar­augum og gleðjumst yfir far­sæld hans og styrk enda mikil­vægt fyrir hag allrar þjóðarinnar að sjávar­út­vegs­fyrir­tækin séu vel rekin og haldi á­fram að þróast.“

Þetta segir Svanur Guð­munds­son, sjávar­út­vegs­fræðingur og fram­kvæmda­stjóri Bláa hag­kerfisins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Þar skrifar Svanur um þá á­kvörðun eig­enda Sam­herja að fram­selja hluta­bréf sín til barna sinna. Starf­semi Sam­herja er skipt í tvo hluta, annars vegar Sam­herja hf. Og hins vegar Sam­herja Holding sem fer með starf­semi fyrir­tækisins er­lendis. Á fram­salið einungis við um fyrr­nefnda fé­lagið.

Skatturinn og dauðinn

„Það er lífsins gangur að ein kyn­slóð tekur við af annarri. Allt er breytingum undir­orpið og flest reynum við að undir­búa okkur sem best, hvort sem við erum að yfir­gefa þennan heim eða taka hann í arf,“ segir Svanur í grein sinni.

Hann segir að í því réttar­ríki sem við lifum núna hafi lög­gjafinn nokkurn við­búnað til að tryggja að allt fari eftir settum reglum þó stundum sé haft á orði að ríkið sé fyrsti syrgjandinn þegar kemur að upp­gjöri arfs.

„Þannig hefur skapast hefð fyrir því að þegar verð­mæti fara á milli kyn­slóða mætir ríkis­valdið og það mun mæta aftur næst þegar sami arfur gengur milli næstu kyn­slóða. Ef arfurinn á­vaxtast lítið þá mun allt að endingu hverfa til ríkisins. Þannig má segja að það sé erfingi allra erfingja enda að­eins tvennt öruggt í lífinu; skatturinn og dauðinn.“

Ríkissjóður fær mikla fjármuni

Svanur segir að hver geti haft sína skoðun á því hve sann­gjarnt kerfið er. Hér hafi þó myndast sátt um að hafa laga­lega um­gjörð um erfða­mál sem allir Ís­lendingar þurfa að gangast undir.

„Nú hefur verið upp­lýst að eig­endur eins stærsta sjávar­út­vegs­fyrir­tækis landsins hafa á­kveðið að færa eignar­hlut sinn í fyrir­tækinu til af­kom­enda sinna. Það er gert fyrir opnum tjöldum og öllum reglum fylgt þannig að ríkis­erfinginn fái nú örugg­lega sinn hlut, sem hann mun líka fá næst og svo aftur koll af kolli eins og áður var rakið. Sann­gjarnt? Já, um það má deila en þeir sem hafa skilað miklu ævi­verki og farnast vel skila meiru frá sér til næstu kyn­slóða.

Svanur bendir á að vera sé að færa hlut í at­vinnu­fyrir­tæki, með öllum réttindum og skyldum, milli kyn­slóða. Að­gerðin nái einungis til hluta­bréfa Sam­herja.

„Afla­marks­kerfið hefur ekkert með þetta fyrir­komu­lag að gera, fyrir­tækið sem hér um ræðir hefur þar réttindi og skyldur eins og á svo mörgum öðrum sviðum og mun upp­fylla þau á­fram. Fyrir þau veiði­réttindi sem fyrir­tækið hefur að­gang að verður að greiða veiði­leyfa­gjald, rétt eins og á við um aðra skatta sem þarf að greiða af starf­seminni. Það sem var greitt áður, verður greitt á­fram, óháð eignar­haldi. Eina breytingin er að ríkis­sjóður mun fá mikla fjár­muni til sín vegna fyrir­fram­greidds arfs.“

Hann segir að um­ræðan í kjöl­far kyn­slóða­skipta Sam­herja minni á hve um­ræðan um sjávar­út­veginn getur orðið undar­leg. Segir hann að Ís­lendingar ættu að vera stoltir af sjávar­út­veginum og standa saman að því að gera þar enn betur.