Svandís svavarsdóttir í ruglinu

Svandís Svavarsdóttir þingmaður VG varð sér til skammar þegar hún fullyrti að Landsbankinn hafi verið að selja hlutabréf ríkisins í fasteiganfélaginu Reitum “á brunaútsölu”. Hún reyndi svo með innantómum upphrópunum að gera söluna tortryggilega á allan hátt. Ljóst er að ásakanir þingmannsins eru ófagmannlegar, rætnar og innstæðulausar.

Það þjónar engum tilgangi fyrir ríkissjóð að eiga hlutabréf í skráðum félögum ef unnt er að selja þau á eðlilegu markaðsverði á virkum hlutabréfamarkaði eins og reyndist vera í þessu tilviki. Landsbankanum var falið að selja bréfinn. Bankinn stóð að sölunni á allan hátt faglega. Hlutabréfin voru auglýst til sölu, allir gátu boðið, allt ferlið var opið og engu var leynt. Markaðsaðilar eru sammála um að gengið 83,30 hafi verið fullkomlega eðlilegt og meira en viðunandi. Ríkissjóður á ekkert að halda í 6% hlut í svona félagi. Ríkið fékk bréfin afhent vegna uppgjörs við þrotabú stóru bankanna eins og fleiri eignir. Því fyrr sem þessar eignir eru seldar á eðlilegu verði, þeim mun betra.

Svandís hélt að hún gæti nú búið til pólitískt moldviðri og tengt þessi viðskipti við sölu Landsbankans á hlutabréfium í Borgun til ættingja Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Það mál var hneyksli eins og fram hefur komið. En salan á hlutabréfum í Reitum er alger andstæða við Borgunarviðskiptin. Allt uppi á borðum, útboðið auglýst og kynnt. Engin vildarvinir eða ættingjar við borðið. 

Kaupendur voru fjölmargir, ekki síst fjárfestingarsjóðir og lífeyrissjóðir. M.a. Lífeyrissjóðurinn sem Svandís er sjóðsfélagi í. Svandís var þannig einn af kaupendunum!

Þetta upphlaup Svandísar er dæmi um það þegar þingmenn tefla sér fram og gjamma um mál sem þeir hafa ekki kynnt sér og hafa greinilega enga þekkingu á. Stundum er betra að þegja.