Svandís er til vandræða náist saman

Formenn ríkisstjórnarflokkanna gera nú úrslitatilraun til að greiða úr fjölmörgum ágreiningsmálum sem fjallað hefur verið um að undanförnu. Sum varða djúpstæðan grundvallarágreining um málefni en önnur snúast einfaldlega um persónur og leikendur.
Tekist er á um stefnuna í nýtingar-og friðunarmálum. Sjálfstæðismenn og Framsókn vilja virkja myndarlega og það strax. Verði raforkuframleiðsla ekki markvisst aukin án tafar, kemst hagkerfið ekki í gang að fullu á nýjan leik eftir þær truflanir sem veiruvandinn og seinagangur á síðasta kjörtímabili hafa valdið. Vinstri grænir vilja helst ekki virkja meira. Þeir vilja bara friða og það sem mest. Þeim tókst að tefja öll framfaraskref varðandi raforkuframleiðslu á síðasta kjörtímabili en slíkt verður ekki liðið að þessu sinni. Nú er unnið að því að flytja skipulagsvaldið frá umhverfisráðuneytinu þannig að VG geti haldið því ráðuneyti, þótt laskað verði eftir slíka breytingu.
Vinstri græn gera sér ljóst að heilbrigðisráðuneytið verður tekið af þeim og reyndasta þingmanni Sjálfstæðisflokksins fengið það hlutverk að taka þar til hendinni. Þar dugar ekkert minna en kraftaverk. Guðlaugur Þór Þórðarson er baráttujaxl og mun fara í verkefnið. Trúlega er hann sá eini sem getur ráðið við það með sóma.
Fyrir utan ágreining um heilbrigðismál, og allt sem snýr að umhverfisráðuneytinu, er engin samstaða milli VG og hinna ríkisstjórnarflokkanna um skattamál, ríkisfjármál, stjórnarskrána, hálendisþjóðgarð, málefni innflytjenda og fleiri mál sem VG hefur talið sig standa fyrir. Hinir flokkarnir áttuðu sig fyrir löngu á að veislan er búin og komið að skuldadögum á sviði ríkisfjármála og efnahagsmála. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur vilja horfast í augu við vandannstrax en VG vonar að unnt verði að sigla í gegnum annað kjörtímabil stöðnunar og athafnaleysis. Tekist er á um þetta.
Takist að semja er ljóst að áframhaldandi stjórnarþátttaka VG verður skilyrt við áframhaldandi setu Katrínar í forsætisráðuneytinu þrátt fyrir að flokkur hennar hafi tapað 5 prósentum og þremur þingsætum í nýafstöðnum kosningum. Þá stöðu þarf VG að kaupa dýru verði. Hinir ríkisstjórnarflokkarnir eru mjög tregir til að láta Svandísi Svavarsdóttur eftir ráðherraembætti eftir að henni verður vikið úr heilbrigðisráðuneytinu. Við blasir að varaformaður flokksins, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, haldi embætti sínu sem umhverfisráðherra nái flokkarnir saman – en hvar á þá að koma Svandísi fyrir? Hún er sögð sækjast eftir menntamálaráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu eða atvinnuvegaráðuneyti. Ekkert af þessu hugnast Framsókn eða Sjálfstæðisflokki. Þeir vilja ekki sjá hana tróna yfir ríkisútvarpinu, dómstólunum, lögreglunni eða málefnum atvinnulífsins. Hún nýtur einfaldlega ekki trausts til þess. Nú er rætt um þann möguleika að gera Svandísi að forseta Alþingis en þá fengju Vinstri grænir einungis tvo ráðherra sem þeim þætti væntanlega rýr kostur.
Verði þetta niðurstaðan má gera ráð fyrir að ráðherrum Framsóknar fjölgi um einn, enda var flokkurinn ótvíræður sigurvegari kosninganna. Willum Þór Þórsson gæti komið nýr inn og tekið við t.d. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Lilja Alfreðsdóttir sækir það fast að verða utanríkisráðherra að nýju. Ekki kæmi á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn tæki þá við menntamálaráðuneytinu og fengi varaformanni flokksins það í hendur til að rýma fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, fyrsta þingmanni Suðurkjördæmis, sem þykir sjálfkjörin í embætti ráðherra iðnaðar-og ferðamála.
En áður en til alls þessa kemur þarf að ná samkomulagi um mörg erfið og vandmeðfarin mál. Ekki mun nást saman nema Vinstri græn gefi eftir flest sín grundvallarmál. Öllu skal fórnað á altari virðingarembættis fyrir formann flokksins. Metorðagirnd víkur málefnum til hliðar.
- Ólafur Arnarson