Svandís boðar til blaðamannafundar í dag

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur boðað til blaðamannafundar í dag vegna fjölgunar kórónuveirusmita undanfarna daga. Aðeins er tæp vika síðan tilslakanir tóku gildi en síðustu þrjá daga hafa yfir 60 smit greinst.

Ríkisstjórnin fundaði í morgun um stöðu mála og vildi Svandís ekkert tjá sig við blaðamenn að fundi loknum. Vísir greinir frá því að Svandís hafi sagt að boðað yrði til blaðamannafundar í dag og á honum yrði fjallað um aðgerðir.

Það er hins vegar alls óvíst hvert efni fundarins verður nákvæmlega; hvort hertar aðgerðir á landamærunum, eins og margir hafa kallað eftir, verði kynntar eða hvort ráðist verði aftur í hertar aðgerðir innanlands í ljósi margra innanlandssmita undanfarna daga.

Eins og komið hefur fram greindist 21 smit hér á landi í gær, 27 á sunnudag og 13 á laugardag.