Sumar­frí þings og þjóðar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skrifar:

Það er gott að geta tekið sér sumar­frí, sér­stak­lega á­hyggju­laust sumar­frí eins og ráða­menn þjóðarinnar munu ef­laust gera.

En á meðan þing­heimur sleikir sólina sleikir þjóðin sárin. Eða öllu heldur sá hluti þjóðarinnar sem niður­sveiflan hefur leikið hvað verst.

Nú hefur þingi verið frestað frá 30.júní til 27.ágúst næst­komandi og komast væntan­lega þing­menn og ráð­herrar í kær­komið frí.

Það er með ó­líkindum hvernig hægt er að skilja fólk eftir í við­líka ó­vissu og fram­undan er án þess að senda frá sér ein­hverjar yfir­lýsingar um það sem koma skal.

Kvíðinn tekur sér ekki sumar­frí og ó­vissan ekki heldur.

Kvíði og ó­vissa yfir því hvort at­vinnu­leysis­bætur verði skertar ef fólk skráir sig í nám, en ætla má að nú sé sá tími sem slík plön eru gerð.

Kvíði og ó­vissa yfir því hvort þér verði refsað fyrir að halda þér í lífs­nauð­syn­legri virkni eftir at­vinnu­missi.

Kvíði og ó­vissa yfir því hvort greiðslu­skjólin verði fram­lengd eða hvort van­skila­skráin taki á móti þér í haust.

Kvíði og ó­vissa yfir því hvort að tekju­tengdar at­vinnu­leysis­bætur verða fram­lengdar, at­vinnu­leysis­bætur hækkaðar eða valið muni standa á milli matar­kaupa eða greiðslu reikninga.

Nú þegar eru fjöldi at­vinnu­leit­enda að skoða mögu­leika til menntunar en sökum þess að fram­lög til sí­menntunar­stöðva eins og Mími hafa verið skorin við nögl er ekki mögu­leiki á að taka við fleiri verk­efnum.
Við í verka­lýðs­hreyfingunni vitum vel að það er verið að vinna í mörgum þessum málum. Og við erum að reyna okkar besta í að ná þeim í gegn í sam­vinnu við stjórn­völd.

En það breytir því ekki að fólkið okkar, sem þessi staða hittir harðast, hefur ekki hug­mynd um hvað er í gangi og hvers ber að vænta. Það gera sér allir grein fyrir því að stundum getur tekið tíma að vinna hlutina en það sem við þurfum síst á að halda núna er ó­þarfa ó­vissa og brengluð for­gangs­röðun.

Það eru því kaldar kveðjur út í sumarið að skella í lás, vegna sumar­lokana, án þess að gefa minnstu vís­bendingar eða yfir­lýsingar um hvers sé að vænta á komandi mánuðum.

Ég skora á stjórn­völd að senda frá sér yfir­lýsingu um hvort og þá hvernig þessum verk­efnum verður raðað niður á haustið svo fólk geti í það minnsta gert plön á meðan þing­heimur sleikir sólina.