Suðræn og ævintýraleg stemning innan um pálmatrén í Gróðurhúsinu

Gróðurhúsið opnaði í Hveragerði í desember síðastliðnum og má segja að lífið þar hafi dafnað og vaxið síðustu vikur og mánuði. Fjölbreytt starfsemi er í byggingunni sem höfðar bæði til Íslendinga og erlendra ferðamanna en þar er að finna hótel, mathöll, bar, lífstílsverslanir, kaffihús, matarmarkað og ísbúð. Í þættinum Matur og heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar Gróðurhúsið og hittir Brynjólf Baldursson einn eiganda og fær að heyra um tilurð Gróðurhússins og hugmyndafræðina bak við það.

FBL Gróðurhúsið Glerskáli-.jpeg

Glerskálinn er hinn glæsilegasti og þarna inni leynist suðræn stemning með pálmatrjám, Nýlendubar og fjölbreyttu úrvali af veitingastöðum. Mynd/Baldur Kristjánsson.

„Við uppbyggingu Gróðurhússins hefur sjálfbærni verið höfð að leiðarljósi og nafnið því vel við hæfi enda Hveragerði þekkt fyrir sín fjölmörgu gróðurhús. Markmiðið er að gestir geti staldrað við í fallegu umhverfi og notið alls þess sem Gróðurhúsið hefur upp á að bjóða,“ segir Brynjólfur. Pálmatré og lifandi gróður prýðir Gróðurhúsið sem býður upp á suðræna og ævintýralega upplifun gesta.

„Gróðurhúsið er hjarta blómabæjarins og býður upp á fjölbreytt úrval veitingastaða í mathöllinni ásamt suðrænni upplifun á Nýlendubar. Einnig er í Gróðurhúsinu glæsilegt úrval af lífsstílsvörum þar sem gamalgróin vörumerki hafa komið sér fyrir ásamt nýrri sælkeraverslun og matarmarkaði,“ segir Brynjólfur og ánægður með hversu vel hefur tekist að sameina alla þessa þætti í Gróðurhúsinu. Svo er þar að finna eina fallegustu ísbúð landsins Bongó sem ber nafn með rentu og er hönnuð af einum vinsælasta innanhússarkitekt landsins, Rut Kára. Rut og eiginmaður hennar Kristinn Arnarsson eiga og reka Bongó.

Loks er það lífsstíls hótelið, The Greenhouse Hotel með áherslu á hágæða herbergi ásamt lifandi og skemmtilegri upplifun gesta. „Við eigum eftir að bæta hér við glæsilegri útiaðstöðu uppi á toppi þar sem gestir geta notið sín með hækkandi sól,“segir Brynjólfur.

Meira um leyndardóma Gróðurhússins í þættinum Matur og heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.

FBL Grodurhusid 2.jpeg

Nýlendubarinn er sveipaður suðrænni og kúbverskri stemningu. Mynd/Baldur Kristjánsson.

FBL Grodurhusid 4.jpeg

Huggulegt umhverfi með frumlegum sætum í tröppu formi koma skemmtilega út í Gróðurhúsinu. Mynd/Baldur Kristjánsson.

Hér fyrir neðan má sjá brot úr þætti kvöldsins: