Styrkir til stjórnmálaflokka voru hækkaðir um 127 prósent milli ára

Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur, birtir athyglisverðar greinar í DV alla föstudaga sem eru hver annarri betri.

Nú um helgina fjallar grein hans í DV um ríkisstyrki til stjórnmálaflokka sem eru vægast sagt umdeildir. Síðustu ellefu árin hefur ríkið greitt um fimm milljarða króna til flokkanna. Það er með ólíkindum og vægast sagt einkennilegt hve litla athygli þessi háttsemi Alþingis vekur.

Árum saman námu þessir ríkisstyrkir kringum 300 milljónir króna á ári og þótti flestum nóg um.

En þegar núverandi ríkisstjórn kom til valda þá voru styrkir til stjórnmálaflokka hækkaðir um 127 prósent árið 2018 saman borið við árið á undan og fóru þá upp í 677 milljónir á ári. Samkvæmt fjárlögum 2020 nemur þessi styrkur, sem þingmenn skammta flokkum sínum, 732 milljónum króna.

Spyrja má hvort þetta sé eðlilegt eða hreinlega boðlegt. Flokkarnir skulda kjósendum svör við því.

Gömlu flokkarnir hafa verið skuldum vafnir, ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn sem skuldaði um 600 milljónir. Samfylking, Framsókn og VG hafa einnig glímt við langa skuldahala.

Furðu vekur að nýjir og skuldlitlir flokkar eins og Miðflokkur ásamt Viðreisn hafi stutt sukk af þessu tagi með opinbera fjármuni. Þeir hefðu átt að sýna staðfestu og leggjast gegn þessum óhóflegu hækkunum á ríkisstyrkjum til stjórnmálaflokka.

Þá vekur Björn Jón einnig athygli á því að pólitískir aðstoðarmenn flokkanna hafi fengið yfir 400 milljónir frá ríkinu á síðasta ári.

Þetta er komið út fyrir öll velsæmismörk!