Stuðningur við ríkisstjórnina miklu meiri en við ríkisstjórnarflokkana

7. maí 2020
12:12
Fréttir & pistlar

Tvær athyglisverðar skoðanakannanir hafa verið birtar í vikunni. Annars vegar á RÚV og hins vegar í Fréttablaðinu. Þær eiga það sammerkt að mæla stuðning við ríkisstjórnina mikið meiri en stuðningur við ríkisstjórnarflokkana mælist. Báðar þessar kannanir sýna um 60 prósent stuðning við ríkisstjórnina en ekki nema 42 til 47 prósent stuðning við ríkisstjórnarflokkana samtals. Þetta er merkilegt við fyrstu sýn. En þegar betur er að gáð þá þarf þessi munur ekki að koma á óvart.

Þegar spurt er um stuðning við ríkisstjórnina virðast margir svarendur vera með hugann við stjórnvöld og þá gætu mælst jákvæð viðhorf og traust sem borið er til þríeykisins Víðis, Þórólfs og Ölmu sem hafa átt sviðið í fjölmiðlum síðustu tvo mánuði. Þegar spurt er um stuðning við er einstaka flokka ná stjórnarflokkarnir ekki því trausti sem stjórnkerfið virðist njóta um þessar mundir.

Þekkt er að fylgi við stuðningsflokka ríkisstjórna eykst yfirleitt mjög mikið þegar hörmungar steðja að eins og styrjaldir, náttúruhamfarir eða efnahagskreppur. Sögulega séð ætti fylgi við ríkisstjórnarflokkana hér á landi að vera miklu meiri um þessar mundir en raun ber vitni. Það hlýtur að vera þeim mikið áhyggjuefni því sagan kennir einnig að slíkur meðbyr endist jafnan mjög stutt. Ætla má að innan fárra vikna muni fylgi flokka sækja í sama farið og var áður en veirufaraldurinn kom upp.

Samkvæmt könnun Fréttablaðsins nýtur Sjálfstæðisflokkur stuðnings 22,4 prósent kjósenda en 25 prósenta í könnun RÚV. Samfylkingin mælist með 15 prósent í annarri könnuninni en 13,8 í hinni. Vinstri græn mælast með 11,8 prósent hjá Fréttablaðinu en 13,8 í könnun RÚV. Framsóknarflokkurinn hefur 8,4 prósent í báðum könnunum, Viðreisn er með um 10 prósent í báðum könnunum, Píratar eru með 11,9 prósent í könnun Fréttablaðsins en 10,4 prósent hjá RÚV. Miðflokkur mælist með 8,6 til 9,9 prósent.

Hvorki Flokkur fólksins né Sósíalistaflokkurinn fengju þingmenn kjörna samkvæmt þessum könnunum.