Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs unnu með yfirburðum

Jón Karl Ólafsson, mikill stuðningsmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, var endurkjörinn formaður Varðar - fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík í gær. Kosningaþátttaka var óvenjumikil en 433 greiddu atkvæði. Stuðningsmenn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur stóðu fyrir öflugri smölun atkvæða og ætlunin var að tryggja kosningu stuðningsmanna hennar inn í stjórn Varðar en það mistókst algerlega. Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs voru kjörnir í öll sjö sætin sem kosið var um og það með miklum yfirburðum. Ljóst er að staða Guðlaugs Þórs innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er áfram firnasterk og flest bendir til þess að hann eigi efsta sætið öruggt í komandi prófkjöri flokksins.

Þessi niðurstaða hlýtur að vera áfall fyrir Áslaugu Örnu og stuðningslið hennar. Ætlunin var að sýna styrk hennar og tryggja stuðningsmönnum Áslaugar setu í stjórn Varðar en það var langt frá því að takast. Þó bauð hennar fólk fram þekktar konur eins og Önnu Hrefnu Ingimundardóttur hjá Samtökum atvinnulífsins og Ólöfu Skaftadóttur fyrrverandi ritstjóra. Hvorug þeirra náði kjöri.

Frami Áslaugar Örnu í flokknum hefur verið mikill og hraður en hún er einungis þrítug að aldri. Svo virðist sem hún hafi að sumu leyti ofmetið styrk sinn og fyrsta sæti í prófkjöri flokksins nú í vor sé varla raunhæft. Þá hefur hún ekki farið leynt með þá skoðun sína að hún stefni hærra í flokknum en að gegna embætti dómsmálaráðherra. Litið var á stjórnarkjörið í Verði sem mælistiku á styrk hennar í samanburði við Guðlaug Þór í borginni.

Fróðlegt verður að sjá hver verður framvinda innan flokksins í aðdraganda prófkjörs sem fer fram í byrjun júní. Efni Áslaug Arna og stuðningsfólk hennar til átaka um forystusætið við Guðlaug Þór, heldur áfram sá klofningur sem hefur verið viðvarandi vandamál í flokknum árum og áratugum saman. Þannig átök hamla gegn góðum árangri í sjálfum kosningunum eins og dæmin sanna.