Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs ókyrrast og vilja landsfund

Vaxandi órói gerir nú vart við sig í Sjálfstæðisflokknum. Landsfundur hefur ekki verið haldinn í þrjú ár. Bjarni Benediktsson hefur gegnt formennslu í flokknum frá árinu 2009, í rúm 13 ár.

Fylgi flokksins hefur skroppið saman í valdatíð Bjarna, er ekki lengur 35 til 40 prósent heldur er það að festast í 25 prósentum. Við þessari þróun eru engin svör, einungis bent á afsakanir. Að mati leiðtoganna sjálfra er þessi óhagstæða þróun einhverju öðru að kenna en forystu flokksins .

Í nýafstöðnum skveitarstjórnakosningum mældist fylgi flokksins í Reykjavík hið lægsta frá upphafi, einungis 24,5prósent. Á fjórum árum töpuðust 6,3 prósentustig og tveir borgarfulltrúar flokksins féllu.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn þurfi almennt ekki að kvarta undan valdaleysi í sveitarstjórnum, skiptir útkoman í Reykjavík höfuðmáli. Borgin er krúnudjásnið og stóra stjarna stjórnmálaflokkanna sem fara þar með völd. Sú upphefð hlotnast Sjálfstæðisflokknum ekki næstu fjögur árin, hvað sem síðar verður.

Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er klofinn í fylkingar á milli stuðningsmanna ráðherranna Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur. Þetta kemur víða fram. Núverandi hópur nýkjörinna borgarfulltrúa flokksins er talinn skiptast milli þessara fylkinga og vegna þessa efast margir um að flokkurinn sé hreinlega stjórntækur í borgarmálunum.

Talið er að stuðningsmenn Guðlaugs Þórs séu mjög farnir að ókyrrast. Þrjú ár eru liðin frá síðasta landsfundi flokksins en honum var frestað vegna veiruvandans. Flokksforystan á ekki lengur skjól í veirunni.

Bjarni hefur staðið vaktina lengi og nú virðist vera borin von að honum takist að finna útgöngutíma í kjölfar viðunandi kosningaárangurs. Þá er ekki um annað að gera að velja útgöngu og geta þó alla vega státað af því að halda flokknum í ríkisstjórn þó að um vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur sé að ræða, sem mörgum sjálfstæðismanninum þykir niðurlægjandi.

Þó að flokkurinn hafi víða tapað fylgi og kjörnum fulltrúum í kosningunum er hann samt í meirihluta í stórum sveitarfélögum eins og Kópavogi, Hafnarfirði og á Akureyri. Sjálfstæðisflokknum er því engin vorkunn þó að honum svíði sárt að þurfa að verja enn einu kjörtímabilinu í valdalausum minnihluta í Reykjavík, nú með Sósíalistaflokki Íslands, Vinstri grænum og Flokki fólksins.

Samstarfið í ríkisstjórninni er ekki með besta móti sem stendur. Illindi eru milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins vegna flóttamannamála. Sala á hlutabréfum í Íslandsbanka hefur skemmt fyrir þótt deila megi um réttmæti þeirrar gagnrýni sem salan hefur fengið. Vandinn í ríkisfjármálum kemur senn upp á yfirborðið á sama tíma og vextir hækka og verðbólga eykst hröðum skrefum.

Þá eru Vinstri grænir í sárum eftir sveitarstjórnarkosningarnar og sjálfstæðismenn ósáttir með margt. Framsókn er hins vegar skemmt og uppskera öfund frá samstarfsflokkunum. Vafalaust verður breitt áfram yfir vandann en staðan er ekki góð og samstarfsandinn er takmarkaður.

Sterk öfl innan Sjálfstæðisflokksins telja óhjákvæmilegt að á hausti komanda fari fram kosningar á landsfundi og valin verði ný forysta. Það sé blátt áfram lífsnauðsyn fyrir flokkinn. Þá mun Guðlaugur Þór Þórðarson bjóða sig fram til formanns á móti núverandi varaformanni sem Bjarni hefur handvalið sem eftirmann sinn. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ýmsum kostum búin sem stjórnmálamaður. Enn sem komið er hefur hún þó ekki vaxið upp í það stóra hlutverk að leiða Sjálfstæðisflokkinn.

Hér er því spáð að Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra taki við formennsku flokksins næsta haust.

- Ólafur Arnarson