Stúdíóíbúð í miðborginni vekur athygli: Klósettið við hliðina á rúminu

Eftirspurnin eftir íbúðarhúsnæði er töluverð á höfuðborgarsvæðinu og hafa sumir brugðið á það ráð að breyta til dæmis bílskúrum í litlar stúdíóíbúðir. Ein slík stúdíóíbúð hefur vakið töluverða athygli á fjölmennri leigusíðu á Facebook sem ætluð er íbúum í hverfum 101, 105 og 107 í Reykjavík.

Í auglýsingunni kemur fram að um sé að ræða stúdíóíbúð fyrir einn sem er laus frá og með 3. Október næstkomandi. Íbúðin er sögð vera skammt frá Vesturbæjarskóla í póstnúmeri 101. Ekki kemur fram hver leigan á íbúðinni er en miðað við athugasemdir undir færslunni er ekki víst að eftirspurnin verði mikil.

Athygli vekur að klósettið í íbúðinni er steinsnar frá rúminu í íbúðinni. Ef íbúi vaknar í spreng þarf hann ekki að gera annað en að stökkva yfir einn lítinn vegg til að komast beint á klósettið.

Sem fyrr segir hefur auglýsingin vakið talsverða athygli og sitt sýnist hverjum. Einn segir að íbúðin líti út eins og fangaklefi á meðan annar spyr hvort ekkert í lögum kveði á um að salerni þurfi að vera í sérstöku lokuðu rými.