Strætó hafði samband við Ingu eftir atvikið í gær en hún ætlar alla leið með málið

„Strætó hafði samband í morgun og ég er þakklát fyrir það,“ segir Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, listfræðingur og starfsmaður Þroskahjálpar, á Twitter-síðu sinni.

Eins og Hringbraut greindi frá í morgun varð Inga fyrir óskemmtilegri reynslu þegar hún beið eftir strætó í gærkvöldi. Inga, sem hefur verið í hjólastól alla sína ævi, hafði beðið í tuttugu mínútur í kuldanum þegar strætisvagninn loksins kom. Sá galli var á að ekki var aðgengi fyrir hjólastól í vagninum. Þetta er langt því frá í fyrsta skiptið sem Inga lendir í þessu.

„Aðstoðarkonan mín er að taka leigubíl heim til mín að sækja bílinn minn sem er semi óökufær og á leið á verkstæði. Bíð úti á meðan, alein, að deyja úr kulda. Í alvöru. Þetta á ekki að vera svona,“ sagði Inga og bætti við að henni væri kalt og skór hennar blautir í gegn.

Í nýrri færslu á Twitter-síðu sinni segir Inga að Strætó hafi haft samband í morgun en Inga ætlar samt að fara lengra með málið.

„Ég er hins vegar búin að benda á þetta ítrekað síðustu ár, sem og annað fatlað fólk. Eftir atvikið í gær hef ég óskað eftir fundi með framkvæmdastj. og stjórn strætó. Krafan er að fá óaðgengilega vagna af götunni strax!“

Færsla Ingu í morgun vakti mikla athygli og lýsti Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, því yfir að hún ætlaði mögulega að leggja fram fyrirspurn í borgarráði vegna málsins. „Þetta er með öllu óásættanlegt. Ég er búin að hafa samband við fulltrúa Reykjavíkur í stjórn Strætó. Hann ætlar að biðja framkvæmdastjóra um minnisblað um málið. Ég er að skoða að leggja jafnvel fram fyrirspurn í Borgarráði,“ sagði hún.

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sagði að málið væri með öllu óboðlegt. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, tók undir þetta í færslu nú í hádeginu. „Þetta var alveg hræðileg frásögn og því miður einmitt ekki eitthvað sem ætti að koma neitt á óvart. Vonandi að viðbrögðin núna ýti við einhverjum breytingum. Loksins.“