Stórglæsileg penthouse-íbúð á Mýrargötunni í mínímalískum stíl

Bryndís Stella Birgisdóttir innanhússhönnuður og fagurkeri, sem ávallt er kölluð Stella, ásamt manninum sínum Jakobi Helga Bjarnasyni fengu sér penthouse íbúð á Mýrargötunni sem var tilbúin til innréttingar síðastliðið vor. Hún stendur á besta stað í hjarta miðbæjarins, á horninu á Mýrargötu og Seljalandsvegi þar sem útsýnið skartar sínu fegursta og mannlífið iðar að lífi.

Sjöfn Þórðar heimsækir Stellu í þættinum Matur og heimili í kvöld sem er búin að hanna og innrétta íbúðina eftir þeirra draumastíl með glæsilegri útkomu. Stella fékk að ráða öllu og segist vera ótrúlega þakklát fyrir það. Stella er þekkt fyrir sinn stílhreina stíl sem einkennist af hráleika, jarðlitum, formum og skemmtilegri blöndu af efnivið.

Stella Birgisdóttir, innanhúshönnuður og heimilið hennar 41.jpg

Borðstofan björt og stór þar hráleikinn fær að njóta sín og heimilisdýrin líka.

„Við elskum að bjóða gestum heim í mat og bröns og því lögðum við mikla áherslu á vera með rúmgóða borðstofu,“segir Stella en þegar gengið er inn í íbúðina er gengið inn í stóra og bjarta borðstofu í opnu og miklu rými. Borðstofan og eldhúsið eru í opna rýminu og svo í framhaldinu stofan. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég er með eyju og ég er ótrúlega ánægð með hana, bæði nýtinguna og stálið sem við völdum,“segir Stella og bætir því við að hinum megin við eyjuna nýtist gluggasyllurnar sem sæti og þar geti gestirnir fengið drykk.

Stella Birgisdóttir, innanhúshönnuður og heimilið hennar 30.jpg

Eldhúsið er mikið prýði og þar slær hjarta heimilisins.

„Ég safna stólum, það er svona svoldið mitt,“segir Stella þegar hún segir Sjöfn að svörtu ítölsku stólana sem prýða stofuna hafi mamma hennar fundið fyrir einhverju síðan í Góða hirðinum.

Lifandi og skemmtilegt innlit Sjafnar til fagurkerans Stellu í þættinum Matur og Heimili í kvöld á Hringbraut. Þátturinn er frumsýndur klukkan 19.00 og fyrsta endursýning er klukkan 21.00.

Stella Birgisdóttir, innanhúshönnuður og heimilið hennar 31.jpg

Takið eftir hve innréttingin er falleg og býður upp á fjölbreytileika eldhússins.