Stjórnmálafræðingur um Gunnar Smára: „Stórhættuleg viðhorf“

Viktor Orri Valgarðsson, doktor í stjórnmálafræði, segir að ummæli Gunnars Smára Egilssonar Sósíalistaforingja um dómstóla geti reynst stórhættuleg þegar á hólminn sé komið.

„Það sem Gunnar Smári sagði í Forystusætinu í fyrradag um dómstóla ber vott um stórhættuleg viðhorf til meðferðar ríkisvalds,“ segir Viktor Orri á Facebook. „Hann sagðist vilja skipta hæstaréttardómurum út fyrir dómara sem eru honum þóknanlegri; ekki á þeim forsendum að sýnt hefði verið fram á að einstaka dómarar hefðu gerst brotlegir í starfi, heldur á þeim forsendum að Íslendingum finnist Ísland almennt vera spillt land og þess vegna hljóti allir þessir dómarar að vera spilltir og réttlátt að reka þá.“

Þá finnist Gunnari Smára ekkert tiltökumál að þetta væri skýrt brot á stjórnarskránni og þrískiptingu ríkisvaldsins. „Við myndum bara stofna nýtt lýðveldi eins og Frakkar gerðu í den tid og þá þyrftum við ekki að hafa áhyggjur af smáatriðum eins og takmörkunum á valdi ríkisstjórnarinnar yfir samfélaginu.“

Þá beinir Viktor Orri sjónum sínum að orðum Katrínar Baldursdóttur, oddvita Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Suður, um að flokkurinn ætli að setja upp eigin fjölmiðil og blaða­menn geti sótt um styrki til að fjalla um það sem flokkn­um finnst „þess virði“.

„Þegar þetta bætist svo við nýlega boðaða stefnu flokksins um að reka sérstakan flokksmiðil á kostnað ríkisins og hætta að styðja aðra fjölmiðla nema þá sem hafa sótt um og hlotið sérstaka náð fyrir flokknum (varðandi nákvæmlega hvað þau ætli að fjalla um og hvernig), þá er því miður orðið ljóst að það er nákvæmlega ekkert "nútímalegt" eða "lýðræðislegt" við þann sósíalisma sem þessi flokkur boðar,“ segir hann og bætir við að lokum: „Sem er auðvitað drullusvekkjandi...“

Gunnar Smári svarar og segir:

„Hvað með nýtt slagorð Pírata: Stöndum vörð um spillt dómskerfi Sjálfstæðisflokksins!“

Líkir hann svo Viktori við Hannes Hólmstein Gissurarson: „Fyrr má nú sanna sig sem stofuhæfan í stássstofum Valhallar, en að fara að gelta að fólki sem talar máli almennings gegn auðvaldinu. Það vantar ekki fleiri Hannesa Hólmsteina.“