Stjórnarflokkarnir tapa fylgi og komnir niður í 41,7 prósent - Ný ríkisstjórn varla mynduð án Sjálfstæðisflokksins

7. ágúst 2020
22:30
Fréttir & pistlar

Ný könnun mælir fylgi flokka þannig að ríkisstjórnin er kolfallin eins og lengi hefur verið niðurstaða skoðanakannana. Þessir þrír flokkar mælast nú einungis með 41,7 prósent fylgi og fengju 29 þingmenn kjörna í stað 35 þingmanna í kosningunum haustið 2017 en þá var samanlagt fylgi þeirra um 53 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínum 16 þingmönnum, Vinstri græn tapa þremur sætum og Framsókn tapar einnig þremur mönnum og mælist einungis með 7.6 prósent fylgi, næði fimm þingmönnum á landsbyggðinni en fengi engan kjörinn á höfuðborgarsvæðinu. Vinstri græn hafa tapað meira en þriðja hverjum kjósanda frá kosningunum miðað við niðurstöðu könnunar Gallups.

Samfylkingin fengi tíu menn kjörna og bætti við sig þremur frá kosningunum. Píratar fengju níu þingmenn og bættu einnig við sig þremur. Viðreisn tvöfaldaði þingmanafjölda sinn, fengi átta í stað fjögurra í kosningunum. Þingmannafjöldi Miðflokks yrði óbreyttur. Flokkur fólksins og Sósíalistar næðu ekki inn á Alþingi.

Þingmannafjöldi núverandi ríkisstjórnarflokka er samkvæmt könnun Gallups einungis 29 og því gæti stjórnin ekki haldið völdum óbreytt. En fengi hún Miðflokkinn til liðs við sig þá hefði hún nægan meirihluta. Það er samt afar ólíklegt þar sem ekkert bendir til þess að sættir séu í sjónmáli milli Framsóknar og Miðflokks þó suma gamla framsóknarmenn dreymi um það. Flestir líta á sættir milli þessara tveggja flokka sem hreina draumóra.

Miðað við fyrrgreindar niðurstöður könnunar Gallups er vandséð að ríkisstjórn verði mynduð án Sjálfstæðisflokksins. Geti flokkurinn unnið með Samfylkingunni, sem er ekki sjálfgefið, þá gæti hann myndað miðju/hægri stjórn með þeim og Viðreisn sem hefði 34 þingsæti á bak við sig eða þá vinstri/hægri stjórn með Vinstri grænum í stað Viðreisnar.

Píratar neita að starfa með Sjálfstæðisflokki og varla þarf að gera ráð fyrir að margir flokkar kjósi samstarf við Miðflokkinn. Ef mynda á vinstri/miðju stjórn þyrfti fjóra flokka til. Það getur varla talist áhugaverður kostur ef aðrir kostir eru mögulegir.

Miðað við framangreindar niðurstöður bendir margt til þess að Bjarni Benediktsson hefði val um að mynda ríkisstjórn til vinstri með Samfylkingu og Vinstri grænum eða þá hægri/miðju stjórn með Samfylkingu og Viðreisn. Sá kostur ætti að hugnast flestum sjálfstæðismönnum sem líður mjög illa með þá staðreynd að formaður sósíalista skuli leiða núverandi ríkisstjórn í boði Sjálfstæðisflokksins. Það er niðurlæging sem flokkurinn hefur ekki reynt fyrr.

Þorri sjálfstæðismanna telur forgangsverkefni að koma vinstri grænum frá völdum og að formaður flokksins myndi næstu ríkisstjórn.