„Stígamót völdu lið til að þóknast konu sem sakað hafði landsliðsmann um ofbeldi“

Sigurður Guðni Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, fyrrverandi eigandi DV fyrrverandi forstjóri Norðurljósa, fjallar um mál Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur á Facebook-síðu sinni í kvöld og segir það merkilegt hvernig Stígamótum tókst að valda mikilli óvissu hjá karlalandsliðinu í knattspyrnu. Liðið keppti í kvöld í undankeppni fyrir HM í Katar á næsta ári og gerði jafntefli á lokasprettinum við Norður Makedóníu.

Sigurður Guðni segir að liðinu hafi tekist að landa stigi í öðrum leik undankeppninnar eftir að lömuð stjórn KSÍ taldi rétt að Stígamót kæmu að vali í liðið en ekki þjálfarar liðsins.

„Stígamót völdu lið til að þóknast konu sem sakað hafði landsliðsmann um ofbeldi aðfaranótt laugardags um miðja september 2017, en gert við hann sátt í maí 2018 og fengið bætur sér til handa og fé í sjóði Stígamóta,“ segir Sigurður Guðni og á þar við Þórhildi Gyðu.

Hann er með færslunni skjöl og vitnisburð hennar hjá lögreglu og segir margt óljóst í hennar máli og nefnir sem dæmi að hún ákvað að bíða með læknisheimsókn til sunnudagskvölds.

„Læknirinn virðist ekki hafa séð eða fundið mikla áverka, ef marka má skýrslu konunnar hjá lögreglu eftir hún hafði lagt fram kæru,“ segir Sigurður Guðni.

Þá dregur hann fram gamlar færslur Þórhildar Gyðu af samfélagsmiðlum árið 2017 og segir þau endurspegla „klefakúltúr hennar og núverandi lagskvenna hjá Stígamótum. Þau ágætu samtök virðast nú vera að tapa trúverðugleika vegna kenninga öfgvafullrar umræðu kynjafræðings um karlmenn og fullyrðinga um nauðgunarmenningu meðal knattspyrnumanna.“

Þá segir hann annað áhugavert í máli Þórhildar Gyðu vera aðkomu forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar.

„Faðir konunnar setur sig í samband við forsetann eftir áramót 2018 og segist ómögulega geta farið á vináttulandsleik vestur í Ameríku því í liði Íslands sé maður sem beitt hafi dóttur hans ofbeldi. Forsetinn lofar að taka þessi vandræði föðurins upp við nafna sinn forseta KSÍ. Forsetinn virðist ekki hafa kynnt sér sakargiftir eða spurt hvort málið hafi verið kært til lögreglu og væri til rannsóknar. Stóð hins vegar við það loforð að tala máli föðurins við KSÍ sem ekki fer með neitt rannsóknar- eða dómsvald í ofbeldismálum utan vallar,“ segir Sigurður Guðni og gagnýnir að forsetinn hafi komið í fréttatíma RÚV eftir að búið var að víkja landsliðsmanninum úr liðinu og talað um að „þeir sem kæmu fram fyrir hönd þjóðarinnar mættu ekki haga sér eins og fávitar.“

Sigurður Guðni segir að RÚV ætti að biðja þroskahefta afsökunar á þessu orðfæri forsetans.

Færsluna má sjá hér að neðan.

Fleiri fréttir