Stelpan sem myndaði Eið Smára: „Ég ætlaði aldrei að birta þetta myndband opinberlega“

Stúlka sem tók upp myndband sem sýnir Eið Smára Guðjohnsen, aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kasta af sér vatni í miðborg Reykjavíkur ætlaði ekki að koma því í almenna dreifingu.

Stúlkan, sem vill ekki láta nafns síns getið, segir þetta í viðtali við Fréttablaðið.

Myndband sem sýnir Eið Smára við Ingólfstorg fór í dreifingu á samfélagsmiðlum um helgina og var fullyrt að starf hans sem aðstoðarþjálfari landsliðsins væri í hættu vegna málsins. Greindi Morgunblaðið frá því að Eiði hefðu verið settir afarkostir; annað hvort færi hann í meðferð eða léti af störfum.

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að atvikið hafi átt sér stað skömmu eftir miðnætti aðfaranótt föstudagsins.

„Ég sat bara í stiganum hjá Ingólfstorgi að borða og hann var eitthvað svo fyndinn þannig ég ákvað að taka það upp. Ég ætlaði aldrei að birta þetta myndband opinberlega og ég vissi ekki einu sinni að þetta væri hann,“ segir stelpan sem kveðst ekki hafa haft hugmynd um hver Eiður Smári væri.

Segir stúlkan að henni líða illa yfir því að hafa tekið myndbandið upp og að vinur hennar, sem hún sendi myndbandið, hafi svikið hana með því að dreifa myndbandinu áfram.

„Ég er vön því að taka ýmislegt fyndið og skemmtilegt upp sem gerist í miðbænum fyrir sjálfan mig og nána vini en ekki til þess að því sé deilt með öllum heiminum,“ segir hún.

Fréttina má lesa í heild sinni hér.