Steinunn Ólína: Heilbrigðisstarfsmenn ættu líka að taka sér frí – Bjarni fór í frí og mætir úthvíldur

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fjölmiðlakona, leggur til að heilbrigðisstarfsmenn taki sér frí fyrst að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gerði það.

Þetta sagði Steinunn Ólína á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

„Ég legg til að almenningur og þá sérstaklega heilbrigðisstarfsmenn taki sér frí þar til fjármálaráðherra sér sér fært að mæta úthvíldur til starfa,“ sagði hún.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær mætti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ekki til vinnu á fyrsta þingdegi ársins í gær þar sem hann er í fríi. Upplýsti forseti Alþingis að Bjarni væri staddur erlendis og hlaut hann talsverða gagnrýni fyrir það frá stjórnarandstöðunni.

„Telur hann Alþingi Íslendinga vera það ómerkilegan stað að hann þurfi ekki að mæta hingað?“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

„Ef fjármálaráðherra er í fríi þá er það móðgun,“ sagði Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata.

Mikið hefur mætt á heilbrigðisstarfsfólki í kórónuveirufaraldrinum til þessa og eru margir þeirra hreinlega uppgefnir vegna álags. Þingmenn fengu gott jólafrí en eins og að framan greinir hófust þingstörf að nýju í gær.