Stein­grímur skammaði Ás­mund sem baðst af­sökunar

Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Al­þingis, skammaði Ás­mund Frið­riks­son, þing­mann Sjálf­stæðis­flokksins, á Al­þingi í morgun.

Ás­mundur steig í pontu undir dag­skrár­liðnum störf þingsins þar sem hann fór nokkuð hörðum orðum um nafn­greinda þing­menn, þar á meðal Loga Einars­son og Odd­nýju G. Harðar­dóttur, þing­menn Sam­fylkingarinnar.

Á­stæða þess að Stein­grímur gerði at­huga­semdir við þetta er sú að um­ræðan er lokuð og voru um­ræddir þing­menn ekki á mælenda­skrá. Þeir höfðu því ekki tæki­færi til að svara fyrir sig.

„Það er alls ekki þannig að þing­menn megi ekki eiga í snörpum orða­skiptum, en það skiptir máli að þeim sem orðum er beint að eigi kost á því að koma inn í um­ræðuna og svara fyrir sig. Ef um er að ræða opna um­ræðu þar sem menn geta farið í and­svör eða bætt sér á mælenda­skrá er að sjálf­sögðu allt öðru til að dreifa,“ sagði Stein­grímur.

„Mér er bæði ljúft og skylt að biðja þá þing­menn sem hér eru í salnum, og þá sem ég nafn­greindi áðan, af­sökunar á því að hafa ekki látið þá vita áður en ég fór í ræðu­stól að ég ætlaði að ræða þau mál sem ég gerði. Mér er það bæði ljúft og skylt og mér finnst það góð regla og for­maður míns þing­flokks tók undir það og ég mun ekki láta þetta henda mig aftur,“ sagði Ás­mundur.