Steingrímur sagði engan eiga að vera á Alþingi lengi: „Þingmenn vera fljótir að vera gamlir og þreyttir - Þeir eldast illa“

Rithöfundurinn Hrafn Jökulsson vakti í gær athygli á viðtal við Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis fyrir Vinstri græn, þar sem Steingrímur sagði þingmenn eldast illa og að enginn ætti að vera lengi á þingi í einu. Viðtalið birtist í Helgarpóstinum árið 1983 en þegar það var tekið var Steingrímur yngsti þingmaðurinn á Alþingi, 27 ára gamall.

„Það ætti enginn að vera lengi á þingi í einu. Menn ættu að taka sér hvíld, þegar þeir eru orðnir þreyttir,“ sagði Steingrímur í viðtalinu aðspurður hvort þingmenn verða líkir hver öðrum. „Mér finnst þingmenn vera fljótir að vera gamlir og þreyttir. Þeir eldast illa,“ sagði hann einnig. Steingrímur hefur þó setið á þingi í 37 ár og því sá sem hefur lengst setið.

Í samtali við Eyjuna um viðtalið segir Steingrímur að margt sé öðruvísi í dag heldur en það var þegar viðtalið var tekið en stendur þó við það að viðtalið sé gott. Hann segir Alþingi hafa breyst töluvert, meirihluti þingmanna hafi verið miðaldra og eldri karlar og endurnýjun hafi verið hæg. „Mér fannst ég, háskólaneminn og róttæklingurinn ganga inn í einhvern allt annan heim frá öðrum tíma.“

Hann hafi þó ekki gert ráð fyrir að hann myndi sitja á Alþingi í 37 ár þegar viðtalið var tekið. „Ég átti als ekki von á því, þegar ég sló til og féllst á að taka 1. sæti á lista ABL. fyrir norðan, að þetta myndi verða mitt ævistarf. Frekar að ég yrði í 1-2 kjörtímabil og héldi svo í framhaldsnám eða eitthvað,“ segir Steingrímur í samtali við Eyjuna.

„En, mér var snemma sýndur trúnaður, varð þingflokksformaður strax 1987, og síðan ráðherra, varaformaður og formaður stjórnmálaflokks, síðan aftur ráðherra og loks forseti Alþingis 2016 og aftur 2017. Ég hef notið mikils trausts og fylgis í mínu kjördæmi, verið treyst fyrir því að leiða framboðslista í 11 síðustu alþingiskosningum og tekið þátt í 13, allt frá 1978.“

Hann segir það ekki hafa reynst auðvelt að hætta og bætti við að það væri annarra að meta hvort hann hafi verið of lengi. „Ég held að reynsla mín hafi ekki komið sér illa, sérstaklega á erfiðum tímum eins og nú og eftir hrunið, 2008-2013. Þingið hefur einnig endurnýjast á margföldum hraða frá og með 2009 og það svo að mörgum þykir nóg um. Svona lít ég nú á þetta.“

Viðtal Helgarpóstsins í heild sinni má lesa hér.