Steinar fékk sláandi upplýsingar í gær: Málið þaggað niður til að vernda þjóðþekktan einstakling?

Steinar Immanúel Sörensson, eitt Hjalteyrarbarnanna, segir að sér hafi borist nýjar og sláandi upplýsingar frá lögmanni í gær. Fréttablaðið fjallar um þetta í dag.

Steinar segir að þessar upplýsingar kunni að skýra hvers vegna rannsókn á barnaheimilinu á Hjalteyri við Eyjafjörð hafi ekki farið fram á sínum tíma eða hún jafnvel verið stöðvuð. Hann telur upplýsingarnar mjög trúverðugar.

„Þetta eru upplýsingar um að Hjalteyrarmálið hafi verið þaggað niður þar sem um þjóðþekktan einstakling hafi verið að ræða. Einstakling sem að nokkru leyti bar ábyrgð á að svo fór sem fór og að málið var ekki upplýst á sínum tíma,“ segir Steinar.

Steinar segir við Fréttablaðið að honum hafi brugðið mjög og alltaf grunað að eitthvað ósagt stæði í veginum fyrir því að rannsókn færi fram.

„Mig hefur grunað þetta í mörg ár, allt frá því að ég hóf baráttuna fyrir því að réttlætið fengi framgang, en mig óraði aldrei fyrir að mögulega væri verið að halda hlífiskildi yfir opinberri persónu á kostnað okkar barnanna,“ bætir hann við.