Stefnir skorar á Willum: „Það eru engin sóttvarnarök á bak við þetta“

„Nú er mál að linni! Ég hvet heilbrigðisráðherra og aðra sem hafa með þetta að gera að biðjast afsökunar og breyta núgildandi reglugerð hvað þetta varðar hið snarasta.“

Þetta segir Stefnir Skúlason verkfræðingur í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Í greininni gerir Stefnir skorður á íþróttastarf barna í kórónuveirufaraldrinum að umtalsefni. Bendir hann á að einn eina ferðina séu settar skorður á íþróttastarf barna.

„Ég veit ekki hvort íþróttafélög séu vísvitandi að fara á svig við núgildandi reglugerð eða að skert íþróttastarf barna fari fram án teljandi reiði eða athugasemda foreldra. Ef ég skil þessa reglugerð rétt þá skiptir ekki máli hvort íþróttastarf fari fram í litlum sal, risastórum íþróttasal eða utandyra. Í öllum tilfellum mega aðeins 50 manns fæddir 2015 eða fyrr vera í salnum á sama tíma,“ segir Stefnir og heldur áfram:

„Það eru engin sóttvarnarök á bak við þetta. Verslanir mega jú hafa fjölda viðskiptavina út frá stærð rýmis. Umræðan undanfarið hefur verið á þá leið að hertar sóttvarnaaðgerðir séu til að verja spítalana. Það gefur augaleið að aðgerðir sem beinast gegn börnum hafa ekkert með það að gera.“

Stefnir segir að markmið núgildandi reglugerðar sé að hægja eins og unnt er á útbreiðslu veirunnar en skautað sé yfir reglur um meðalhóf.

„Að sjálfsögðu þarf að gæta þess að fara ekki svo langt að skaði aðgerða verði meiri en ávinningurinn. Ég fullyrði að skaðinn sem börn og ungmenni hafa orðið fyrir vegna skertrar íþrótta- og tómstundaiðkunar á síðastliðnum misserum sé afar mikill. Nú er mál að linni! Ég hvet heilbrigðisráðherra og aðra sem hafa með þetta að gera að biðjast afsökunar og breyta núgildandi reglugerð hvað þetta varðar hið snarasta.“