Stefnir í flókna stöðu og blóðuga baráttu á Suðurlandi hjá þremur flokkum

Fjórir vilja leiða lista Vinstri grænna á Suðurlandi í komandi kosningum. Kolbeinn Óttarsson Proppé hélt að hann gæti gengið að sætinu vísu þegar ljóst var að Ari Trausti Guðmundsson ætlaði að draga sig sjálfviljugur í hlé. Ekki leið á löngu þar til Róbert Marshall gaf sig fram og vildi hreppa sætið en hann hefur áður verið sýnilegur í nokkrum flokkum og meðal annars átt sæti á Alþingi fyrir Samfylkinguna, Bjarta framtíð og utan flokka. Nú er hann orðinn Vinstri grænn. Þá bauð Hólmfríður Árnadóttir sig fram til að leiða listann en hún er frambærilegur skólastjóri í Sandgerði. Svo kom stóra bomban: Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, varaþingmaður, sauðfjárbóndi og sveitarstjórnarmaður í Skaftárhreppi gaf svo kost á sér um liðna helgi og vill ekkert nema fyrsta sæti. Hún er mikill náttúruverndarsinni og stórmerkileg kona. Ætla má að hún beri sigurorð af hinum frambjóðendunum og vinni forystusæti Vinstri grænna í kjördæminu.

Heyrst hefur að Björgvin Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Samfylkingar, skoði nú möguleika á að sækjast eftir efsta sæti flokksins í kjördæminu en Oddný Harðardóttir situr nú í því sæti. Samfylkingin náði einungis 9,6 prósenta fylgi í kjördæminu í kosningunum 2017 sem var minnsti hlutfallslegi stuðningur flokksins á landinu.

Mörgum þykir orðið tímabært að yngja upp í forystu flokksins í kjördæminu en Oddný er komin vel á sjötugsaldur.

Þá stefnir í mikil átök innan Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi en prófkjör flokksins fer fram í lok maí. Páll Magnússon leiddi lista flokksins í síðustu kosningum og einnig náðu kjöri þeir Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá 25,2 prósent greiddra atkvæða. Þá hlaut Framsókn 18,6 prósenta fylgi og Miðflokkurinn 14,3 prósent. Miðflokkurinn hefur verið á miklu undanhaldi á síðustu mánuðum og þyrfti ekki að koma á óvart að Framsókn bætti við sig verulegu fylgi á kostnað Miðflokksins, yrði stærsti flokkurinn í kjördæminu og fengi þrjá þingmenn í stað tveggja síðast. Þá má fastlega gera ráð fyrir að Viðreisn bæti við sig miklu fylgi og fái mann kjörinn sem flokkurinn fékk ekki í kosningunum 2017. Sjálfstæðisflokkurinn gæti því hæglega tapað þriðja þingmanninum sínum í komandi kosningum og fengið einungis tvo menn kjörna. Vilhjálmur Árnason var síðasti kjördæmakjörni þingmaður kjördæmisins í kosningunum 2017.

Vilhjálmur hefur nú lýst því yfir að hann sækist eftir efsta sæti listans í komandi prófkjöri. Þar með skorar hann félaga sinn Pál Magnússon á hólm. Slagur milli þeirra gæti orðið harður. Trúlega mun Ásmundur Friðriksson einungis bjóða sig fram í annað sætið og halda því auðveldlega en hann er sá landsbyggðarþingmaður í Íslandi sem hefur sinnt kjördæmi sínu best allra með stöðugum heimsóknum og akstri um kjördæmið eins og frægt er orðið. En hann mun njóta góðs af ræktarsemi sinni við kjósendur þegar til prófkjörsins kemur. Ekki þarf að koma á óvart að Vilhjálmur Árnason skuli taka þá áhættu að bjóða sig fram í fyrsta sætið. Hann gerir sér auðvitað manna best grein fyrir því að þriðja sæti listans er engan vegin öruggt þingsæti.

Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, gefi kost á sér í prófkjöri flokksins og sækist eftir 2. eða 3. sæti. Hún rekur Hótel Laka og gegnir ýmsum trúnaðarstörfum eins og formennsku í Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi og á einnig sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Enginn skyldi vanmeta framboð hennar enda ætti hún að þekkja vel til innan flokksins í kjördæminu. Einnig hefur komið fram að einhverjir í forystu Sjálfstæðisflokksins hafi hvatt Guðrúnu Hafsteinsdóttur í Hveragerði til að taka þátt í prófkjörinu. Ekki er vitað hvað hún hyggst fyrir. Gefi hún kost á sér í eitthvað af efstu sætum listans gæti prófkjörið orðið ennþá harðara því Guðrún er vel kynnt innan atvinnulífsins þó hún hafi enga reynslu af pólitísku starfi.

Tapi Sjálfstæðisflokkurinn þriðja þingsæti sínu, eins og hæglega gæti gerst, þá yrði það áfall fyrir flokkinn. Staða Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefur oft verið sterk en er veik um þessar mundir. Flokkurinn myndar ekki meirihluta í þremur stærstu sveitarfélögunum innan kjördæmisins. Hann er í minnihluta í Reykjanesbæ, einnig í Árborg og hann missti meirihluta sinn í Vestmannaeyjum í síðustu sveitarstjórnarkosningum þegar flokkurinn klofnaði þar vegna átaka um skipan framboðslista.

Það þarf því ekki að koma á óvart þó mikillar streitu gæti í Sjálfstæðisflokknum vegna baráttu um þingsæti á Suðurlandi. Stressið er þegar orðið áþreifanlegt og ætla má að átökin verði blóðug.