Stefán ósáttur við meðferðina á Sólveigu Önnu: „Eins og frítt skotleyfi hafi verið gefið út“

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu, kemur Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni félagsins, rækilega til varnar í pistli sem birtist á vef Vísis í morgun. Þar gagnrýnir hann orðræðuna sem stundum blossar upp í kringum verkalýðsleiðtogann.

„Margir finna hins vegar að því að Sólveig Anna sé ófáguð í talsmáta og óvenju beinskeytt og stundum hvöss. Í karlaheimi fortíðar hefði sjálfsagt verið sagt um þá sem þannig tjáðu sig að þeir töluðu sjómannamál eða eins og Guðmundur Jaki - og naut það gjarnan virðingar. En beinskeyttur og gagnrýninn talsmáti Sólveigar Önnu er stundum notaður sem átylla til að telja hana ekki húsum hæfa,“ segir Stefán og sem veltir fyrir sér hvort einhverjum hefði dottið í hug að fordæma talsmáta Guðmundar Jaka þegar hann las atvinnurekendum pistilinn á sinn hvassa hátt á árum áður.

Stefán segir að Sólveig Anna sé ákveðin og kröftug umbreytingakona og þessi talsmáti komi til af því.

„Það kallar á gagnrýni og hispursleysi í framsetningu til að ná árangri í umbreytingum, þegar tilefni til gagnrýni og brýninga eru næg. Og það eru þau vissulega þegar um er að ræða kjör og lífsbaráttu láglaunafólks - og ekki síst láglaunakvenna.“

Stefán segist hafa unnið með Sólveigu og viti hvaða kosti hún hafi. Hann hafi þó ítrekað orðið vitni að því að hún hefur ekki notið sannmælis. Hann segir að allt jafnaðarfólk og allir femínistar ættu að fagna tilkomu Sólveigar Önnu í baráttuna á vettvangi þjóðmálanna.

„Allir aðrir verkalýðsleiðtogar sömuleiðis. Svona öflugur einstaklingur hefur ekki komið fram á þessum vettvangi lengi.“

Stefán gagnrýnir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA, sérstaklega í pistli sínum. Það sé kennslubókardæmi um lítilsvirðingu – ef ekki beinlínis kvenfyrirlitningu – hvernig hann leyfir sér að tala um hana sem óalandi og óferjandi.

„Þannig er eins og frítt skotleyfi hafi verið gefið út á Sólveigu Önnu. Stjórnmálamenn sem ættu að styðja hana í nafni jafnaðar- og kvenfrelsisstefnu láta eins og hún sé ýmist ekki til eða að félagsskapur hennar sé þeim ekki sæmandi. Með því er þetta fólk að vanvirða þá verst settu, sem eru umbjóðendur Sólveigar Önnu - ekki síst láglaunakonur. Manni finnst stundum að meint jafnaðarstefna í stjórnmálunum og í háskólaumhverfinu sé meira hugsuð fyrir fínni hluta þjóðarinnar og ekki að sama skapi í þágu þeirra sem mest þurfa á sjónarmiðum og stuðningi jafnaðarfólks og femínista að halda. Láglaunakonurnar á hótelunum og leikskólunum og í mörgum hinum verst launuðu störfunum.“

Grein Stefáns má lesa í heild sinni á vef Vísis.