Stefán jarðar hugmyndir Ólafs Ragnars: „Fjarstæðukenndar skýjaborgir“

Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson segir það fjarstæðukennt að Grænlendingar geti framleitt rafmagn fyrir Evrópu í gegnum sæstreng líkt og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, sagði í Silfri Egils í gær.

Ólafur Ragnar sagði að Íslendingar ættu að byrja að selja rafmagn í gegnum sæstreng:

„Ég held að mesta vandamálið fyrir okkur á Íslandi, ef við ætlum áfram að segja bann við streng, verður þegar Grænlendingar banka upp á, vegna þess að Grænland er eitt öflugasta forðabúr af vatnsaflsorku sem er eftir á Vesturlöndum, og þeir gætu velt því fyrir sér að koma með streng frá Grænlandi í gegnum Ísland, í gegnum Færeyjar til Bretlands og þaðan til Evrópu,“ sagði hann.

Stefán segir á Facebook að vissulega sé óheyrileg orka í öllu vatninu sem streymir nú til sjávar með sívaxandi krafti vegna bráðnunar.

„En það er sitthvor hluturinn heildarorka og vinnanleg orka. Mér sýnist að vinnanleg vatnsorka á vesturströnd Grænlands sé talin 13 TWh. Það er hellingur en þó varla nema um þriðjungur af því sem miðað er við varðandi vatnsorkuna á Íslandi,“ segir Stefán. „Sá er þó munurinn að á Grænlandi yrði þessi orka ekki unnin nema með gríðarlega mörgum smávirkjunum sem byggja þyrfti í óbyggðum í vegalausu landi með sífrera í jörðu. Þá erum við enn ekki farin að ræða vandræðin við að flytja þessa orku frá framleiðslustað.“

Stefán segir að í dag framleiði Grænlendingar 70% af sinni eigin raforkuþörf með vatnsafli. „Það er gott og metnaðarfullt verkefni fyrir þá að reyna að þoka þeirri tölu nær 100%. Og það eru spennandi hugmyndir um að leggja sæstreng frá Nuuk til Nunavut í Kanada um 800 kílómetra leið, en íbúar Nunavut eru nokkru fleiri en Akureyringar og þurfa sitt rafmagn,“ segir hann.

„En vangaveltur um Grænland sem raforkuframleiðanda fyrir Evrópu um sæstreng hljóma eins og fjarstæðukenndar skýjaborgir - hvað þá að slíkar tillögur séu yfirvofandi.“