Stefán Hilmarsson fékk COVID-19: „Dettur einna helst í hug að þetta hafi komið af posa“

21. mars 2020
12:55
Fréttir & pistlar

Tónlistarmaðurinn Stefán Hilmarsson er í hópi þeirra 473 sem smitast hafa af COVID-19 hér á landi. Grunur leikur á að hann hafi nælst sér í veiruna þegar hann var á skóðum í Selva í lok febrúar og byrjun mars.

Stefán segir frá þessu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag.

Stefán fór með eiginkonu og sonum á skíði og kveðst hann ekki hafa hitt neina Íslendinga í ferðinni. Þegar þau héldu út var ekki búið að skilgreina svæðið sem hættusvæði vegna COVID-19 en strax fyrsta daginn og þau komu var svæðið komið í þann flokk.

Stefán segir óvíst með öllu hvar hann komst í snertingu við veiruna. „En mér dettur einna helst í hug að þetta hafi komið af posa. Við höfðum þó með okkur býsn af handspritti og klútum og reyndum að passa vel upp á okkur ytra. En maður fær ekki öllu varist.“

Stefán kveðst fyrst hafa fundið fyrir einkennum þegar heim til Íslands var komið. „Ég var vel slappur fyrst; með hita, hroll og hefðbundin flensueinkenni. Við vissum að við þyrftum öll í sóttkví við heimkomuna. Um leið og ég varð einkenna var, stúkaði ég mig af frá hinum að svo miklu leyti sem hægt var,“ segir hann í viðtalinu í Morgunblaðinu.

Það virðist mjög misjafnt hversu þungt veiran leggst á fólk en Stefán kveðst sem betur fer ekki hafa orðið mikið veikur. Hann var betri daginn og svo til hitalaus en fann þó fyrir þyngslum fyrir brjósti næstu daga á eftir. Hann fékk loks greiningu og reyndist hún jákvæð fyrir COVID-19.

Aðrir í fjölskyldu Stefáns hafa ekki sýnt nein einkenni veikinda enda var strax gripið til einangrunar og sóttkvíar. Stefán kveðst þakklátur heilbrigðisstarfsfólki og þeim sem hafa staðið í stafninum í þessari baráttu, þeim Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni, Ölmu Möller landlækni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.

„Sömuleiðis hafa stjórnmálaforingjarnir okkar staðið sig vel við erfiðar aðstæður, ekki síst fjármála- og forsætisráðherra.“