Stefán finnst hann plataður af pizzu Sölku Sólar: „Það þýddi ferð á bráðamóttökuna“

Sagnfræðingurinn og bjórsérfræðingurinn Stefán Pálsson segir að hann hafi nánast verið plataður þegar hann pantaði flatbökur hjá Domino‘s á laugardaginn.

Í færslu á Twitter segir Stefán að hann hafi pantað heilan haug af pizzum fyrir stóran hóp. „Vissi að það væri vegan-fólk í hópnum og vildi því vanda mig. Ég hafði þó ekki ímyndunarafl í annað en að pizza sem heitir Vegendary félli undir þá skilgreiningu. Finnst ég nánast hafa verið plataður.“

Pizzan Vegendary kom á markað árið 2016, hugmyndin að henni kom frá söngkonunnni Sölku Sól Eyfeld og Arnari Frey kærasta hennar. Á pizzunni er cheddarostur, ferskur mozzarella, ananas, jalapeño, laukur, rauðlaukur, hvítlaukur, chiliflögur, svartur pipar og BBQ sósa. Hún er grænmetispizza, en hún er ekki vegan.

Baráttukonan Inga Björk Bjarnadóttir spurði Stefán hvort það væri ekki skrítið að giska á innihald réttar út frá nafni hans. „Það er bæði hægt að sjá sérstaklega hvaða pizzur eru vegan og það er mjög augljóst að það sé ostur á henni ef maður skoðar lýsingu.“

Stefán viðurkennir það og segir: „Vissulega allar innihaldslýsingar fyrir hendi. En nafngiftin er klárlega villandi - sem er enn frekar óheppilegt þegar um er að ræða mataræði sem meirihluti fólks er ekki með fyllilega á hreinu.“

Hann er ekki sá eini sem lendir í því sama með sömu pizzu: „Ég féll á þessu líka þegar ég var að panta eftir björgunarsveitaæfingu,“ segir Sveinn nokkur. Stefán segir þá: „Maður er ekki beinlínis að setjast niður að lesa innihaldslýsingar þegar pantaðar eru 10-20 pizzur.“

Björn nokkur segir að þetta hafi endað illa. „Mamma mín brenndi sig á hinu sama þegar hún pantaði pitsu handa systur minni og manninum hennar sem er með bráðaofnæmi fyrir mjólkurvörum. Það þýddi ferð á bráðamóttökuna,“ segir Björn.

Ragnheiður nokkur segir svo: „Ekki sá fyrsti og örugglega ekki sá síðasti. Held að Dominos taki þetta ekki af matseðli fyrr en þau drepa einhvern með ofnæmi.“