Starfsmenn reykjavíkurborgar brutu lög: refsingin allt að þriggja ára fangelsi

Starfsmenn Reykjavíkurborgar brutu lög um skjalavörslu og skjalastjórn í tengslum við uppbyggingu Braggans í Nauthólsvík. Það er niðurstaða frumkvæðisrannsóknar Borgarskjalasafns Reykjavíkur.

Skýrsla um niðurstöðurnar lá fyrir í desember á síðasta ári en hefur ekki enn verið gerð opinber. Hringbraut hefur eintak af skýrslunni undir höndum en efni hennar verður rætt á borgarráðsfundi í dag.

Uppbygging Braggans við Nauthólsveg vakti gríðarlega reiði í samfélaginu þegar í ljós kom að kostnaður við verkefnið hefði farið úr böndunum. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir að kostnaðurinn við verkið yrði 158 milljónir króna en endanlegur kostnaður varð 425 milljónir króna.

Í kjölfar umfangsmikillar fjölmiðlaumfjöllunar gerði Innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar úttekt á framkvæmdinni. Leiddi hún í ljós að fjölmargir alvarlegir misbrestir höfðu átt sér stað. Einn alvarlegasti liðurinn sneri að skjalastjórn verkefnis. Þegar á reyndi voru nánast engin skjöl né fundargerðir um verkefnið aðgengileg í skjalavörslukerfi borgarinnar.

Sem dæmi má nefna að Hrólfur Jónsson, sem þá hafði nýlega látið af störfum sem skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, lýsti yfir ábyrgð sinni á framúrkeyrslunni við Braggann.  Rannsókn Innri endurskoðanda beindist því að honum en mikla athygli vakti að tölvupóstum Hrólfs hafði verið eytt. Það torveldaði mjög rannsókn Innri endurskoðanda sem gerði alvarlegar athugasemdir við verklagið.

Í kjölfarið ákvað Borgarskjalasafn Reykjavíkur að hefja frumkvæðisrannsókn á verkefninu til þess að tryggja að ekkert þessu líkt gæti endurtekið sig.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru afdráttarlausar. Skjalavarsla og skjalastjórn skrifstofu eigna- og atvinnuþróunardeildar Reykjavíkurborgar í tengslum við uppbyggingu Braggans í Nauthólsvík var ekki í samræmi við lög um opinber skjalasöfn og reglur settar á grundvelli þeirra. Sé um einbeittan brotavilja að ræða geta viðurlögin orðið allt að þriggja ára fangelsisdómur.

Auk brota á lögum er helsta niðurstaða rannsóknarinnar sú að að fjölmörgum skjölum var bætt inn í skjalasafn borgarinnar eftir rannsókn Borgarskjalasafns hófst. Þessi skjöl voru því ekki aðgengileg þegar umfangsmikilli rannsókn Innri endurskoðanda stóð yfir og umfjöllun fjölmiðla um málið stóð sem hæst.

Einnig er bent á að skjöl voru ítrekað vistuð með þeim hætti að þau væru óaðgengileg. Það virðist hafa verið gert með ráðnum hug því í skýrslunni er birt skjáskot af tölvupóstssamskiptum aðila sem störfuðu við verkefnið. Þar viðrar aðili sem tengist verkefninu áhyggjur sínar um hvort að fjölmiðlar hafi rétt á tilteknum gögnum. Svarar starfsmaður Reykjavíkurborgar því að best væri að hann fengi gögnin send í pdf-skjali sem ekki væri hægt að opna.

Skýrslan  verður rædd á Borgarráðsfundi síðar í dag.