Starfsmannamál borgarinnar ekki í verka­hring stjórn­mála­manna

Lang­flestir starfs­menn og kjörnir full­trúar í borgar­ráði telja að ein­elti við­gangist þar. Þetta kemur fram sál­félagslegu á­hættu­mati á starfs­um­hverfi starfs­fólks sem starfar á vett­vangi borgar­ráðs. Niður­stöður voru kynntar í borgar­ráði í dag en sál­fræði­stofan Líf og sál sá um matið.

Rætt var við fjór­tán starfs­menn sem reglu­lega koma fyrir borgar­ráð og sex kjörna full­trúa. Við­tölin fóru fram í ágúst og til októ­ber­mánaðar 2020. Eins og Frétta­blaðið greindi frá í gær hefur Helga Björg Ragnars­dóttir hætt störfum sem skrif­stofu­stjóri á skrif­stofu borgar­stjóra og segir hún það vera vegna stöðugra per­sónu­á­rása af hálfu Vig­dísar Hauks­dóttur, borgar­full­trúa Mið­flokksins.

Í kynningu sem borgarráð fékk á niðurstöðunum í dag segir að sam­skipti í borgar­ráði hafi gengið mjög nærri starfs­mönnum og kjörnum full­trúm. Ekki hafi tekist að tryggja sál­fé­lags­legt öryggi starfs­manna á þessum vett­vangi og margir hafi upp­lifað mikinn kvíða, sér­stak­lega fyrri tvö árin en það hafi þó lagast.

„Lang flestir við­mælendur telja að ein­elti hafi við­gengist á vett­vangi borgar­ráðs. Lýsingarnar á fram­komu og hegðun falla undir skil­greiningu á ein­elti á vinnu­stað; endur­tekin nei­kvæð/ó­til­hlýði­leg fram­koma á vinnu­stað sem erfitt er að verjast,“ segir í kynningunni. Al­var­legast í þessu sé að starfs­menn séu lokaðir inni í að­stæðum sem þeir hafa enga mögu­leika á að koma sér út úr nema með breytingu á verk­lagi/skipu­riti og verður það til þess að varnar­leysi þeirra er al­gjört í þessum að­stæðum.

„Það hlýtur að skapa mikið varnar­leysi hjá starfs­mönnum Reykja­víkur­borgar að upp­lifa að hægt sé að niður­lægja ein­stak­linga með nafni í fjöl­miðlum og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Hér þarf að gera mikla bragar­bót og er það í verka­hring æðstu stjórn­enda borgarinnar að skapa skjól og öryggi fyrir sína starfs­menn, svo þeir geti ótta­laust sinnt sínum skyldum,“ segir í einnig í niðurstöðu matsins og að það verði að vera mjög skýrt að það sé ekki í verka­hring stjórn­mála­manna að skipta sér af starfs­manna­málum Reykja­víkur­borgar né fag­legum verk­ferlum og vinnu­brögðum. „Þó að nokkur vinna hafi verið unnin þarf að halda á­fram að skerpa á þeim mörkum sem þurfa að vera og mæta með skýrum hætti niður­lægjandi fram­komu og á­rásar­girni í garð starfs­manna.“

Bókanir gengu á víxl

Á borgar­ráðs­fundi í dag flugu bókanir á víxl þegar niður­stöðurnar voru kynntar. Sagði Vig­dís Hauks­dóttir í bókun sinni að kynningin hefði verið merkt sem trúnaðar­mál.

„Þegar til dag­skrár­liðarins kom á borgar­ráðs­fundi var trúnaði af­létt en síð­degis daginn áður hafði em­bættis­maður borgarinnar tjáð sig um könnunina og þar með rofið trúnað því fram kom í kynningunni að búið væri að ræða við þá sem komu fyrir Sál­fræði­þjónustuna Líf og sál, þ.e.a.s. em­bættis­menn. Þetta eru ó­boð­leg vinnu­brögð.“

„Í borgarráði sitja 10 kjörnir fulltrúar og því er haldið fram að kynningin sé ópersónugreinanleg. Það varpar ljósi á þá alvarlegu stöðu að enn er óútkljáð kvörtunarmál vegna þessa máls hjá Persónuvernd og svo mikið lá á að koma þessu máli á framfæri að meirihlutinn gaf sér ekki tíma til að bíða eftir úrskurði stofnunarinnar eða eins og segir: „Ákveðið að kynna nú, þó að Persónuvernd hafi ekki úrskurðað vegna kvörtunar sem barst vegna athugunar.“ Með þessu hunsar Reykjavíkurborg enn á ný eftirlitsstofnanir ríkisins,“ sagði Vigdís.

Lögðu þá full­trúar meiri­hlutans fram gagn­bókun. „Það er kol­rangt að „em­bættis­maður“ hafi rofið trúnað á niður­stöðum á sál­fræði­legu mati á starfs­um­hverfi borgar­ráðs enda hefur um­ræddur starfs­maður ekki séð niður­stöðurnar.“

Var því næst vitnað í orð Helgu á Face­book í gær þar sem hún ræddi út­t­tektina, án þess að vitna í niður­stöður hennar: „Í ágúst sl. var greint frá því að gera ætti út­tekt á sál­fé­lags­legum á­hættu­þáttum fyrir það starfs­fólk sem situr eða þarf reglu­lega að taka sæti á fundum borgar­ráðs í kjöl­far á­bendinga um starfs­um­hverfi þess hóps. Ég vona svo sannar­lega að kjörnir full­trúar taki niður­stöður þeirrar út­tektar al­var­lega og ráðist í nauð­syn­legar og löngu tíma­bærar úr­bætur til að tryggja heil­næmt og öruggt starfs­um­hverfi fyrir okkur öll.“ Á­heyrnar­full­trúi Mið­flokksins velur að snúa öllu á haus þrátt fyrir að vera leið­réttur um það sem er satt og rétt.“

Sagði slæma andann ekki hafa komið með nú­verandi minni­hluta

Þá lagði Vig­dís fram gagn­bókun við gagn­bókun meiri­hlutans. Sagði hún þar að komið hefði fram í kynningunni að em­bættis­menn væru búnir að fá kynningu á niður­stöðum könnunarinnar en ekki borgar­fullrúar.

„Í öllu þessu máli er leikurinn afar ó­jafn. Má segja að þeir 10 borgar­full­trúar sem sitja í borgar­ráði hafi ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér. Þessi leikur er og verður alltaf ó­jafn og minnt er á að mikil ein­eltis­menning hefur ríkt í Ráð­húsinu allt frá árinu 2010 og spannar því þrjú kjör­tíma­bil.

Sá slæmi andi sem ein­kennt hefur störf borgar­ráðs og borgar­stjórnar kom ekki í Ráð­húsið með þeim aðilum sem sitja í minni­hluta nú,“ sagði Vig­dís.

Segir hún til vitnis um það upp­tökur frá fundi borgar­stjórnar frá lokum síðasta kjör­tíma­bils. „Þegar einn frá­farandi borgar­full­trúi sá sig knúinn til að upp­lýsa um ein­eltis­menningu meiri­hlutans. Einnig er minnt á um­mæli annars kjörins fyrr­verandi borgar­full­trúa frá kjör­tíma­bilinu 2010-2014 þar sem hann kom fram og greindi frá sjálfs­vígs­hug­myndum sínum vegna grófs ein­eltis frá meiri­hlutanum. Er ekki komið mál að linni fyrir borgar­stjóra og meiri­hlutann.“