Starfsfólk sundlauga látið svara klögumálum um transfólk: „Mjög einkennilegt“ segir Vigdís

Reykjavíkurborg hefur gefið út bækling fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja og sundlauga um ýmis viðbrögð og svör við mögulegum fyrirspurnum og kvörtunum þegar transfólk notar kyngreinda klefa í sundi.

Undirbúa á starfsfólk þannig til að svara fólki sem t.d. kvartar vegna transfólks í búnings-og sturtuklefum, transóflks sem hefur til dæmis ekki lokið leiðréttingaferli eða undirgengist aðgerð á kynfærum.

Varpa ábyrgðinni yfir á starfsfólk

„Mér finnst bara almennt orðið mjög einkennilegt hvað kjörnir fulltrúar í meirihlutanum varpa ábyrgð yfir á embættismenn og starfsmenn borgarinnar til að svara fyrir ákveðin atriði og stefnuna,“ segir Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Miðflokksins í borgarstjórn en hún hafði ekki þar til nú heyrt af sérstökum leiðbeiningum til starfsfólks íþróttamannvirkja, þar með sundlauga, verandi utan mannréttindaráðs.

Öllum á að líða vel

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunarog lýðræðisráðs, segir borgina vilja vera í fararbroddi er komi að mannréttindum. Þá sé það vitað að þekking sé öflugt vopn gegn fordómum. „Þetta er hluti af stærri vegferð okkar í borginni sem snýr að markvissri vinnu við að auka aðgengi mismunandi hópa eins og allra kynja, fatlaðs fólks og fólks af ólíkum uppruna að þjónustu borgarinnar, borgarlandinu og borginni sem starfsstað. Borgin er samfélag þar sem öllum á að líða vel.“

Leiðbeiningar um samskipti vegna fyrirspurna um transfólk í kyngreindum klefum eru til dæmis þessar:

Gestur: „Það er karlmaður í kvennaklefanum.“

Starfsfólk: „Getur verið að þetta sé transkona, með typpi/með karlkyns kynfæri?“

Gestur: „Ég veit ekkert um það, þetta er bara karlmaður.“

Starfsfólk: „Var viðkomandi að sýna einhverja óviðeigandi hegðun?“

Gestur: „Nei hann var bara í sturtu.“

Starfsfólk: „Var viðkomandi ógnandi?“

Gestur: „Nei hann var ekki að gera neitt.“

Dæmi 2

Gestur: „En þetta getur verið hættulegt, ef karlar fara að stunda það að mæta í kvennaklefann, segjast bara vera trans.“

Starfsfólk: „Það er ekkert sem bendir til þess að það fylgi því hætta að leyfa transfólki að nota kyngreinda klefa, það hefur gert það í áraraðir. Lög og reglur sem leyfa transfólki að nota klefa í takti við kynvitund þess leyfa ekki kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Það er, og mun áfram vera ólöglegt fyrir allt fólk, alls staðar. Það þekkist ekki að fólk þykist vera trans til þess að komast í kyngreinda klefa og það hefur ekki haft þau áhrif að ofbeldi aukist.“

Gestur: „En mér finnst ég bara ekki örugg í klefanum.“

Starfsfólk: „Ef þér finnst þú óörugg þá skulum við skoða hvernig hægt sé að bæta úr því, en við munum þó ekki geta það með því að útiloka transfólk.“

Nánari í Fréttablaðinu í dag.