Spyr hversu margar stjórn­mála­konur væru til í að aug­lýsa númerið sitt á miðlunum

Katrín Atla­dóttir, borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, veltir vöngum yfir því, á samfélagsmiðlinum Twitter, hversu margar stjórn­mála­konur væru til­búnar til að setja síma­númerið sitt fram á sam­fé­lags­miðlum.

„Ekki ég amk,“ svarar Katrín sinni eigin vanga­veltu. Til­efnið er Twitter færsla Jóhanns Páls Jóhanns­sonar, fram­bjóðanda Sam­fylkingarinnar, þar sem hann segist reiðu­búinn til að svara spurningum kjós­enda sem lík­legir eru til að kjósa flokkinn sím­leiðis.

Sjón­varps­maðurinn Gísli Marteinn Baldurs­son hælir Jóhanni Páli í há­stert fyrir upp­á­tækið. „Verð að segja að mér finnst þetta til fyrir­myndar. Stjórn­mála­fólk á að vera að­gengi­legt og mér finnst þau fjöl­mörgu sem eru hér á twitter og taka þátt í um­ræðum eiga mikið hrós skilið. (Í þessari at­huga­semd minni felst að sjálf­sögðu enginn stuðningur við JPJ per se).“

Þá svarar Katrín Gísla: „Hvað ætli margar konur í stjórn­málum væru til í að setja síma­númerið sitt fram með þessum hætti? Ekki ég amk.“

Gísli svarar: „Mjög góður en sorg­legur punktur. En þú ert til fyrir­myndar hér á þessum vett­vangi finnst mér. Svarar alltaf, lætur at­huga mál og svo fram­vegis. Ég myndi sjálfur nota opin­beran vett­vang eins og þennan frekar en að hringja - en kannski sím­töl henti öðrum betur.“

Þá segir Katrín: „Takk! Mér finnst það sjálfsagt og gaman, en það kostar líka að fólki finnst í lagi að segja ógeðslega hluti við mig hér eða í DMs eða jafnvel senda mér bréf heim.“