Spurði hvort hægt væri að vegan­væða lopa­peysu­upp­skrift: Allt fór í bál og brand

Segja mætti að ís­lenska prjóna­sam­fé­lagið sé í upp­námi eftir að net­verji setti inn fyrir­spurn inn á Face­book hópinn „Hand­óðir prjónarar“ í gær­kvöldi um hvort fólk heð­fi hug­myndir um það hvernig hægt væri að vegan­væða lopa­peysu­upp­skrift.

Ó­hætt er að segja að um­ræðan hafi orðið nokkuð ljót í hópnum og neyddist við­komandi til að eyða inn­leggi sínu. Margrét Hlín Snorra­dóttir vekur á því at­hygli á hópnum þar sem hún biður net­verja í hópnum um að taka tilit til líf­stíls manna og gilda þar inni.

„Það bregst ekki að ef minnst er á vegan­isma í ein­hverjum pósti hérna þá hrannast inn hlátur­kallarnir og niðrandi komment. Mér virðist höfundur hafa eytt inn­leggi sínu sem var hérna áðan út af öllu skít­kastinu. Hún var bara að spyrja hvort fólk hefði hug­myndir um hvort hægt væri að vegan­væða lopa­peysu­upp­skrift. Ef ykkur finnst það asna­legt, er svo mikið mál að bara sleppa því að kommenta og skrolla fram­hjá?“ spyr Margrét Hlín við miklar undir­tektir.

Hún segist nánast verða sorg­mædd í hvert sinn sem minnst er á vegan­isma í hópnum. „Vegna þess að það er aldrei hægt að bara ræða spurninguna eða upp­runa­lega póstinn, um­ræðan snýst alltaf upp í hvað það sé arfa­heimskt að vilja ekki nota ull og ef ég hætti mér til að taka þátt þá fer allur tíminn í að reyna að út­skýra þá á­kvörðun fyrir fólki sem samt aug­ljós­lega hefur engan á­huga á svarinu.“

Hún minnir á að orð særa. Enginn þurfi að styðja vega­isma eða vera sam­mála honum til að vera kurteis. Flestir net­verjar í hópnum þakka Margréti fyrir inn­legg sitt. Ein­hverjir spyrja meðal annars hvort eitt­hvað sé til sem heita megi vegan prjóna­skapur. „Við erum með prjóna­síðu ekki vegan­síðu,þessi um­ræða er komin út í þvælu !!“ skrifar einn með­limur hópsins við inn­leggið.