Sprungur komnar í ríkisstjórnina? - Guðmundur sakar Jón um að fara með ósannindi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson Félags- og vinnumarkaðsráðherra segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafa farið með rangt mál varðandi samstöðu ríkisstjórnarinnar. Jón sagði algjöra samstöðu innan ríkisstjórnarinnar, en Guðmundur er ekki á sama máli, en málið varðar brottvísanir á flóttafólki sem hefur verið til mikkillar umræðu síðustu daga.

„Nei það er ekki rétt og ég gerði mjög alvarlegar athugasemdir við þá vegferð sem ráðherrann er á á ríkisstjórnarfundi í morgun.“ sagði Guðmundur.

Þá sagði Guðmundur að fleiri ráðherrar hafi gert alvarlegar athugasemdir við störf Jóns, en vildi ekki gefa upp hverjir það væru. „Þau verða sjálf að gefa það upp.“

Þegar hann var spurður frekar út í hvað honum þætti um ummæli Jóns sagði Guðmundur: „Í mínum huga er þetta bara rangt. Það er bara þannig. Ég vona bara að við leysum úr þessu máli. Ég fylgi bara mannúðlegri útlendingastefnu VG. Að mínu viti þurfum við að taka þetta mál til sérstakrar skoðunnar,“

Þá ítrekaði hann að hann væri ekki ánægður með störf Jóns: „Nei ég get ekki sagt að ég sé það. Ég held að það sé ljóst af mínum orðum.“