Sprengjusveitin skoðaði leikfang í Þorlákshöfn – Þá kom íbúi með virka sprengju

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar, kölluð séraðgerðasveitin, var að störfum í Þorlákshöfn í dag.

Greint er frá því á vef Fréttablaðsins að Lög­reglan á Suður­landi hafi beðið um að­stoð vegna hlutar sem fannst í Þor­láks­höfn. Þegar betur var að gáð reyndist ekki hætta á ferðum. Reyndist hluturinn vera einhverskonar leikfang.

Á meðan sveitin var að skoða leikfangið til að tryggja að það væri alveg örugglega ekki sprengja mætti veg­farandi á svæðið og lét lög­reglu fá fall­byssu­kúlu úr síðari heims­styrj­öld. Kúlan reyndist virk.

Sprengju­sér­fræðingar gæslunnar hófust um­svifa­laust handa við að undir­búa eyðingu hennar. Á öðrum tímanum var fall­byssu­kúlunni eytt og tókst vel að sögn Ás­geirs Er­lends­sonar, upp­lýsinga­full­trúa Land­helgis­gæslunnar. Hann segir ekki ó­al­gengt að fólk leiti til lög­reglu eða gæslunnar vegna muna úr seinni heims­styrj­öldinni, sem leynast víða í náttúrunni og á heimilum.